145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

[15:44]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég skil svar fjármálaráðherra þannig að ekki sé verið að vinna annað eftir ályktun þingflokksins en þetta haftalosunarplan sem er, eins og hæstv. fjármálaráðherra fór yfir, mjög stórt og mikið en það kemur til vegna þess að við erum með mjög litla mynt í litlu landi. Vissulega er rétt, sem ráðherra bendir á, að ýmsir fræðimenn hafa haldið því fram að einmitt þessi litla mynt hafi hjálpað okkur að komast út úr þessum erfiðleikum en það breytir ekki því að við komumst í þessa erfiðleika einmitt út af þessari litlu mynt. Þar er kannski rót vandans. Í staðinn fyrir að upphefja alltaf myntina sem leið til að taka á þessum vanda ættum við að skoða það að losa okkur við grunnvandamálið. Ég hef ekki þá trú að við séum búin að girða fyrir það þó að þetta haftalosunarplan muni ganga. Ef það gengur (Forseti hringir.) fullkomlega eftir munum við samt sem áður geta verið hér með krónu sem er ekki í einhvers konar höftum.