145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

þunn eiginfjármögnun.

364. mál
[15:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Forsaga þessa máls er sú að á 143. löggjafarþingi, 2013–2014, lagði ég fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt sem miðaði að því að taka á svokallaðri þunnri eiginfjármögnun. Það fyrirbæri hefur verið talsvert í opinberri umræðu upp á síðkastið og snýst sérstaklega um alþjóðlegar félagasamstæður þar sem móðurfélög eru staðsett annars staðar en dótturfélög þeirra. Þetta hugtak kemur ekki til ef öll félög innan samstæðunnar eru staðsett í sama landi en kemur til þegar um er að ræða alþjóðleg félög. Ef móðurfélagið vill geta tekið sem mestan hluta hagnaðar dótturfélagsins til sín er núna hagkvæmara að móðurfélagið láni dótturfélaginu háar fjárhæðir sem síðan eru greiddar til baka með háum vöxtum sem fela í raun í sér greiðslu á hagnaði dótturfélagsins sem alla jafna ætti að greiðast út sem arður til eigenda móðurfélagsins í formi vaxtagreiðslna.

Þetta hefur til dæmis verið til umræðu á alþjóðavettvangi í tengslum við alls konar alþjóðleg fyrirtæki. Ég man til dæmis eftir Starbucks-keðjunni. Þetta hefur verið til umræðu í Bretlandi, sérstaklega hvernig eigi að taka á þeim hagnaði sem í raun er færður úr landi með þessum hætti. Þetta hefur sérstaklega verið til umræðu hér á landi í kringum stóru álfyrirtækin.

Máli mínu var vísað til efnahags- og viðskiptanefndar sem skilaði nefndaráliti þar sem lagt var til að frumvarpinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Í nefndarálitinu kemur fram að umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar hafi almennt verið mjög jákvæðir um markmið frumvarpsins og talið þarft að setja reglur um þunna eiginfjármögnun. Þetta frumvarp kom náttúrlega ekki út úr blámanum heldur byggði meðal annars á skýrslu sem var unnin fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið á árinu 2011.

Hins vegar voru gerðar lagatæknilegar athugasemdir. Efnahags- og viðskiptanefnd taldi markmið frumvarpsins jákvætt en það þyrfti frekari skoðun út frá lagatæknilegum athugasemdum og þess vegna var því vísað til ríkisstjórnar. Hér vitna ég beint í nefndarálitið, með leyfi forseta:

„Sér nefndin þannig fyrir sér að það verði tekið til skoðunar og vinnslu í vor og sumar og verði lagt fyrir Alþingi að nýju í betrumbættri útgáfu, annaðhvort sem stjórnarfrumvarp lagt fram af ráðherra eða sem frumvarpsdrög send nefndinni á næsta haustþingi sem lýsir sig þá reiðubúna til að flytja málið.“

Þetta var 3. apríl 2014. Nú nálgast desember 2015 og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvað vinnu við þetta mál líði. Ég held að það skipti mjög miklu máli að taka á þessu í íslenskri löggjöf. Mörg nágrannaríkja okkar hafa tekið á þessu máli sem lýtur að því hvernig við getum lokað glufum í skattkerfinu þannig að í þessu tilviki geti alþjóðleg fyrirtæki ekki farið með hagnaðinn úr landi. Það ætti að vera kappsmál okkar allra að gera kerfið þannig úr garði að það virki sem skyldi. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður (Forseti hringir.) vinnu við þetta mál?