145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

þunn eiginfjármögnun.

364. mál
[16:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þó að ég hefði kosið að þetta mál gengi hraðar fram tel ég hins vegar líka málefnaleg rök að við gerum þetta sem mest í samstarfi við aðrar þjóðir. Mér er kunnugt um þá vinnu sem hefur verið innan OECD og hæstv. ráðherra fór hér yfir.

Einhver ríki hafa nú þegar sett ákveðnar reglur um þetta en auðvitað er líka ljóst að reglurnar halda betur ef þær eru samræmdar milli landa. Því langar mig að lokum að spyrja hæstv. ráðherra almennt um sýn hans á þá þróun sem virðist vera að verða í kjölfar kreppunnar í heiminum, í kjölfar umræðu um skattaskjól og ýmsar glufur í skattalöggjöf þar sem lögð er æ meiri áhersla á samstarf ríkja í milli, hvort hann telji þá ekki í raun mjög jákvæða þróun að horfa til frekara alþjóðlegs samstarfs í skattamálum í ljósi þess að atvinnulífið er orðið miklu alþjóðavæddara en það var fyrir 20 árum sem gerir það að verkum að það eru gerbreyttar aðstæður í skattalöggjöfinni. Við erum aðilar að EES og það kæmi mér ekki á óvart að að minnsta kosti þar innan borðs yrðu skattamál meira rædd í framtíðinni þegar kemur að alþjóðlegum reglum.

Annað sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um er kannski meira teoretískt. Hann sagði áðan að hann ætti ekki von á frumvarpi á þessu þingi, nema þá til kynningar, og ég lít þá svo á að við eigum von á frumvarpi um þessi mál á næsta þingi þannig að þessari vinnu ætti að minnsta kosti að ljúka á kjörtímabilinu.