145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

refsingar vegna fíkniefnabrota.

257. mál
[16:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hæstv. innanríkisráðherra nefndi þann starfshóp sem hefur tekið til starfa hjá heilbrigðisráðuneytinu þannig að ég fer ekki út í það á þeim stutta tíma sem ég hef. Mig langaði að nefna í þessu samhengi að málaflokkurinn vímuefni eða sér í lagi viðbrögð yfirvalda við vímuefnavandanum hafa birst sögulega í formi taugaveiklunar, sér í lagi á seinni hluta 20. aldar þegar samfélagið virtist upplifa það sem einhvers konar nýja ógn en vímuefni eru ekki ný ógn. Áfengi sem dæmi hefur verið með okkur í mörg þúsund ár og er með hættulegri vímuefnum. Um það er ekki deilt meðal fagmanna að mínu viti.

Það að eiga við vandamál sem þetta með refsingum er í grundvallaratriðum röng nálgun. Ég held að almenningsálitið og meira að segja álit alþjóðastofnana sem málið varðar sé sífellt að komast nær þeirri niðurstöðu og því fagna ég þessari umræðu og sér í lagi viðbrögðum hæstv. ráðherra, en hef líka fulla trú á því að það verði breytingar til batnaðar um leið og fólk fer að ræða þetta því að helsti vandinn um þetta málefni er að fólk hefur ekki viljað ræða það.