145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

refsingar vegna fíkniefnabrota.

257. mál
[16:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Heiða Kristín Helgadóttir) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherranum svörin og býst við að fá skýrari svör hvað varðar burðardýr í síðara svari. Ég tek líka undir það með hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni að það þarf að ræða þessi mál. Margt hefur komið fram á síðari hluta síðustu aldar, og margar rannsóknir stutt það, sem fært hefur fólk nær þeirri skoðun að ekki sé hægt að takast á við þennan félagslega og heilbrigðislega vanda með refsingum og ofstæki heldur liggi þetta einhvers staðar dýpra í samfélaginu og samfélagssaumunum.

Þetta er líka að stórum hluta spurning um viðhorf og tækifæri og svo marga hluti sem ekki er hægt að ná utan um ef þú ætlar bara að horfa á hlutina frá einu sjónarhorni. Ég þakka ráðherra skýr svör að því leyti, ég gat ekki skilið orð hennar á annan veg en þann að þessi málaflokkur yrði ekki leystur með refsingum, ég vona að ég sé að hafa rétt eftir.

Mig langaði þá í framhaldinu að beina annarri spurningu til hennar. Eins og fram kom áðan, í óundirbúnum fyrirspurnum, þá var ég að lesa landsfundarsamþykktir Sjálfstæðisflokksins um helgina, mjög skemmtilegt, og þar kom fram að stefnt skyldi að því að varsla neysluskammta fíkniefna verði ekki refsiverð og starfshættir lögreglu og heilbrigðisstarfsfólk taki mið af því. Þó að það hafi kannski þegar komið fram þá langaði mig að vita hvort einhver vinna væri í gangi, önnur en hjá þessum starfshópi, við að koma þessu í gagnið.