145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

lögmæti smálána.

311. mál
[16:23]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég vona að ég nái að svara þessum sex spurningum í fyrra svari mínu. Við skulum láta á það reyna.

Hv. þingmaður lítur í fyrstu spurningu sinni sérstaklega til þess hvort kannað hafi verið lögmæti þessara smálána, spyr ekki um afstöðu mína sérstaklega til þeirra heldur um lögmæti þeirra. Fyrst er að nefna að smálán eru í sjálfu sér ekki ólögmæt. Ekki er þó mikið til af upplýsingum um slíkar lánveitingar. Í lögum um neytendalán, nr. 33/2013, sem smálán falla meðal annars undir er kveðið á um hámarkskostnað sem heimilt er að krefja neytendur um í tengslum við lán. Samkvæmt 26. gr. laganna má árleg hlutfallstala kostnaðar ekki vera hærri en 50% að viðbættum stýrivöxtum. Neytendastofa hefur tekið ákvarðanir vegna lánveitinga starfandi smálánafyrirtækja og komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn ákvæðum laganna um útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar og hámark árlegs kostnaðar. Stofnunin hefur gert fyrirtækjunum að breyta útreikningum sínum og bannað þeim að innheimta kostnað sem er hærri en það hámark sem heimilað er í lögunum, auk þess sem lagðar hafa verið stjórnvaldssektir á fyrirtækin. Þá hefur Neytendastofa tekið ákvarðanir um dagsektir fyrir brot gegn ákvörðun stofnunarinnar.

Kredia og Smálán, fyrirtæki á þessum markaði, hafa nú stefnt Neytendastofu til ógildingar á ákvörðuninni, enda hefur hún þau áhrif að lækka þarf verulega þann kostnað sem innheimtur er með lánunum.

Í öðru lagi er spurt hvort einhver samræða um þessa tegund lánastarfsemi hafi átt sér stað á vettvangi EES eða Evrópusambandsins. Neytendastofa hefur á grundvelli samstarfs við evrópskar systurstofnanir tekið þátt í umræðum um málið, auk þess að fá upplýsingar um aðgerðir stjórnvalda í öðrum löndum vegna smálána. Ekkert formlegt samstarf hefur átt sér stað, enda eru ekki til samræmdar gerðir, reglugerðir, tilskipanir eða leiðbeiningar innan Evrópusambandsins um smálán. Reglur sem gilda í hverju ríki geta því verið nokkuð ólíkar. Kostnaður neytenda við að taka smálán er vandamál í mörgum ríkjum Evrópu. Gripið hefur verið til mismunandi aðgerða. Í einhverjum ríkjum virðast aðgerðir hafa leitt til þess að engin smálánafyrirtæki eru lengur starfandi þar.

Þá var við setningu laga um neytendalán, nr. 33/2013, sem ég vitnaði til áðan skoðað hver framkvæmdin væri í öðrum ríkjum varðandi hámark á árlegri hlutfallstölu kostnaðar.

Í þriðja lagi er spurt hvort ráðherra hafi upplýsingar um hvernig lán þessi séu innheimt og hversu hart sé gengið fram í þeim efnum. Ráðuneytið hefur verið í sambandi við Neytendastofu vegna þessa en hún er stjórnvald á þessu sviði. Þær upplýsingar sem Neytendastofa hefur fengið frá neytendum um það hvernig innheimtu smálána er háttað eru að innheimtan sé í samræmi við skilmála fyrirtækjanna.

Ef ég tek niður þessa skilmála Kredia og Smálána eru þeir þannig að viðskiptavinur veitir lánveitanda heimild til að skuldfæra kröfuna auk áfallins kostnaðar af bankareikningi viðskiptavinar á gjalddaga/eindaga. Ef ekki reynist innstæða á bankareikningi viðskiptavinar hefur lánveitandi heimild til að skuldfæra á dags fresti af bankareikningi viðskiptavinar þar til krafan ásamt öllum kostnaði hefur verið greidd. Síðan eru líka skilmálar Múla og Hraðpeninga sem ég sé ekki ástæðu til að lesa hér upp. Þessir skilmálar liggja fyrir áður en lán er tekið, en telji neytendur skilmála ósanngjarna samkvæmt 36. gr. laga um samningagerð sem er grundvallarákvæði þegar litið er til samningagerðar geta þeir leitað til dómstóla með það álitaefni.

Í fjórða lagi er spurt hvort smálánafyrirtæki geti átt lögmætar kröfur á aðstandendur lánþega og hvort ráðherra þekki dæmi um tilraunir smálánafyrirtækja til að innheimta hjá aðstandendum. Ekki liggja fyrir upplýsingar um að smálánafyrirtæki hafi krafist ábyrgðarmanns og samkvæmt skilmálum þeirra er ekki krafist slíkrar ábyrgðar. Ég kannast ekki sjálf við nein slík dæmi, þekki það ekki og get ekki úttalað mig um það hér.

Í fimmta lagi er spurt hvort það hafi verið kannað hjá ráðuneytinu eða undirstofnunum þess hvort ólögmætri nauðung hafi verið beitt. Ábendingar um að ólögmætri nauðung hafi verið beitt við innheimtu hafa hvorki borist til ráðuneytisins eftir að við leituðum að því né til Neytendastofu.

Í sjötta lagi er spurt um lánþega sem eru fastir í viðjum smálána. Ég ætla ekki að lesa spurninguna upp en svarið er: Ekki eru í boði af hálfu stjórnvalda nein sérstök úrræði fyrir þá neytendur sem eru yfirskuldsettir vegna smálána. Hvorki hafa borist ábendingar um vanda sem þennan né hefur hann komið sérstaklega til umræðu innan ráðuneytisins.