145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

lögmæti smálána.

311. mál
[16:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að þakka öllum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu vegna þess að hún hefur verið mjög rík þótt hver mælandi hafi afskaplega skamman tíma til að tala. Það er stundum sagt að stærsta og oftast sagða lygi sem fyrirfinnst í heiminum samanstandi af tveimur orðum, ég samþykki, eða á ensku, með leyfi forseta, I agree.

Þetta er nokkuð sem flestir segja gjarnan á netinu þegar þeir fá heilan doðrant af einhverju lagamáli, jafnvel á erlendu tungumáli, reyndar yfirleitt á erlendu tungumáli, og þá er einfaldlega svo auðvelt að ýta á takkann I agree og fá þjónustuna sem er venjulega rosalega skemmtileg, mikilvæg og allt það.

Eitt af stóru vandamálunum sem ég sé við smálánin er að viðskiptamódelið gengur í meginatriðum út á að gera það auðvelt að fá lán án þess að fara endilega í gegnum þá lagalegu króka og kima sem þarf að fara í gegnum til að komast að upplýstri ákvörðun. Þar liggur vandinn, í upplýstu ákvörðuninni. Ef allir færu í gegnum skilmálana og öðluðust þessa upplýstu ákvörðun og veltu þessu virkilega fyrir sér væri þetta kannski ekki vandamál, en tilgangur þjónustunnar er einmitt að hún sé veitt sem hraðast undir kringumstæðum þar sem ekki er tími eða aðstæður til að sækja um yfirdráttarheimild, nýta kreditkort eða aðra þjónustu sem þó oft er kölluð okurþjónusta ef út í það er farið.

Mig langar sérstaklega að taka undir með hv. 2. þm. Reykv. n., Frosta Sigurjónssyni. Hann nefnir það að þarna eru oft einstaklingar sem eru ekki í aðstöðu til að sækja rétt sinn ef þeir telja á sér brotið. Það er mikilvægt að yfirvöld hafi yfirsýn og einhverja sýn á það hvernig hægt er að hafa þetta sanngjarnt þótt ég geti alveg tekið undir það og sagði reyndar í ræðu minni að almennt eigi fólk að bera ábyrgð á sínum eigin fjármálum. Við verðum samt líka að taka tillit til burða fólks og aðstæðna þegar kemur að því að taka mikilvægar ákvarðanir. Ef of auðvelt er að gera of veigamikil mistök verða yfirvöld að gera eitthvað til að bregðast við.

Að lokum þakka ég einfaldlega fyrir umræðuna.