145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

lögmæti smálána.

311. mál
[16:38]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir vil ég þakka fyrir þessa umræðu. Það hefur verið gagnlegt að taka þátt í henni. Ég held að það sé ágætt að ítreka að það verður fróðlegt að sjá niðurstöðu dómstóla í því tiltekna máli þar sem Neytendastofu var stefnt vegna álagningar dagsekta. Það skiptir máli fyrir það hvernig maður lítur á það að hvaða niðurstöðu dómstólar komast.

Síðan tek ég bara fram sem grundvallaratriði að það er náttúrlega samningsfrelsi í landinu. Ákvæði 36. gr. sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, sem er sögulega séð frekar nýtt í samningalöggjöfinni, er hugsað til þess að aðilar geti beitt slíku ákvæði fyrir sig vegna samninga gagnvart dómstólum. Fólk getur þá alltaf beitt því ákvæði fyrir sig til að komast undan samningum. Það hefur hins vegar sýnt sig að það er mjög vandmeðfarið ákvæði og því er ekki mikið beitt, en það er sannarlega fyrir hendi til varnar ákveðnum tegundum samninga þegar á ákveðna hluti reynir. Ég held að það geti verið mjög vandmeðfarið að fela Neytendastofu einhvern veginn að halda utan um það ákvæði. Það ákvæði er fyrst og fremst hugsað til þess að nýta í málaferlum fyrir dómstólum.