145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum.

349. mál
[16:52]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Íslenskar veðuraðstæður gera það að verkum að íþróttafélög eru núna í einhverjum mæli að skipta grasi út fyrir gervigras svo að hægt sé að spila fótbolta yfir vetrartímann. Þetta þýðir meðal annars það að æska landsins er að æfa fótbolta á gervigrasi. Ég vil taka undir það að þessir vellir eru því miður sýkingarbæli og mér finnst gríðarlega mikilvægt að við gerum allt sem hægt er til þess að koma í veg fyrir það að ungt fólk og bara allt fólk sem æfir íþróttir, sem eiga auðvitað að vera eitthvað heilsusamlegt, sé ekki að æfa íþróttir í óheilsusamlegu umhverfi. Ég hlakka þess vegna mikið til að heyra svar hæstv. ráðherra við lokaspurningunni. En ég vona svo sannarlega að við tökum hreinlega fyrir það að nota gúmmíkurl, sérstaklega úr notuðum bíldekkjum, en líklega ætti bara allt gúmmíkurl að vera bannað.