145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum.

349. mál
[16:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka sérstaklega innlegg og svör hæstv. ráðherra og innlegg annarra hv. þingmanna í umræðuna og tel að það sé afar mikilvægt að draga fram tilgang þess að taka þetta mál fyrir og fylgja eftir þeirri viðleitni sveitarfélaganna og knattspyrnufélaganna að skipta þessum eiturefnum út. Það kom jafnframt fram í umræðunni að vellirnir eru vissulega sýkingarbæli. Efnin berast heim á heimilin með fatnaði og skóm og í þvottavélar, þetta rennur út í nærlendi þessara valla með ófyrirséðum afleiðingum, þannig að nauðsynlegt er fyrir okkur að taka á þessu máli.

Bæði Svíar og Norðmenn fóru þá leið að stjórnvöld beindu tilmælum til þeirra aðila sem hanna og byggja þessa velli að nota ekki endurunnið dekkjagúmmí. Það er hárrétt sem hv. þm. Sigríður Á. Andersen kom inn á að upphaflegi tilgangurinn var að sinna endurvinnslu og svo hreinlega að ná fram sparnaði, þetta var ódýrara. Það situr auðvitað í sveitarfélögunum að það kostar meira að nota hættuminna gúmmí.

Ég vil benda þeim hv. þingmönnum sem vilja kynna sér þetta mál betur á fésbókarsíðu þar sem haldið hefur verið mjög vel utan um alla fjölmiðlaumfjöllun og allar rannsóknir og viðbrögð nágrannalanda okkar í þessum efnum.

Að lokum vil ég segja að ég hef trú á því að hæstv. umhverfisráðherra beiti sér fyrir því að klára þetta mál með Umhverfisstofnun og vil beina því til allra hlutaðeigandi aðila að skipta þessum efnum út.