145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum.

349. mál
[16:56]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Áður en ég kem að umræðunni langar mig að reyna að lesa hratt yfir síðustu spurninguna sem var um það hvort það yrði þá alfarið bannað. Það er mikilvægt að efni sem er notað uppfylli þær kröfur sem eru gerðar. Framleiðendur og innflytjendur á gervigrasvöllum og vörum fyrir gervigras eiga að bera ábyrgð og geta sýnt fram á að vörur sem þeir setja á markað uppfylli kröfur um að þær skaði ekki heilsu manna eða umhverfi. Það er rétt að taka fram að gúmmíkurl sem verið er að markaðssetja um þessar mundir er talið öruggara en það sem var á markaðnum fyrir nokkrum árum. Síðan er ekki heldur hægt að fullyrða að plastkúlur sem farið er að nota í auknum mæli séu miklu betri en gúmmíkurlið til lengri tíma litið frá umhverfissjónarmiði.

Eins og við höfum talað um mun ég fylgja þessu máli fast eftir, bæði við Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, þar sem ýmsir áhættuþættir fyrir heilsu virðast vera mjög tengdir gervigrasvöllum, ekki bara kurli. Eins og ég segi, reynist rétt að það sé svona skaðlegt er náttúrlega rétt að banna þann innflutning. Við erum ekki að flytja inn til landsins vörur sem sannarlega eru taldar skaðlegar heilsu manna.