145. löggjafarþing — 44. fundur,  30. nóv. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

157. mál
[17:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum nú í 3. umr. um þetta mál. Ég verð að viðurkenna að þegar það kom fram í haust þá hélt ég í einfeldni minni að um væri að ræða frumvarp sem beinlínis leiddi af fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. En því miður er hér einungis um að ræða orðalagsbreytingafrumvarp. Það er satt að segja mjög sérstakt að sjá frumvarp upp á 30 greinar sem felur bara í sér að verið sé að breyta orðalagi. Í stað orðanna „fatlaðan mann“— í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1987, um breytingu á umferðarlögum, svo að dæmi sé tekið — eigi að koma: fatlaðan einstakling. Þannig má lengi telja.

Hér er um að ræða bandorm margra orðalagsbreytinga en ekki lagabreytingar sem hafa efnislega þýðingu.

Við stóðum allnokkrir þingmenn í haust að tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem hæstv. sitjandi forseti, Kristján L. Möller, er fyrsti flutningsmaður að. Í tillögugreininni felst að ríkisstjórninni verði falið að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um réttindi fatlaðs fólks. Í greinargerð með þeirri tillögu kemur fram að 151 ríki af 157, sem hafi gerst aðilar að samningnum, hafi þegar fullgilt hann. Síðan hefur þeim ríkjum fjölgað sem hafa fullgilt hann. Þannig að Ísland er orðið aftast á merinni hvað varðar fullgildingu þessa mikilvæga samnings sem Ísland gerði þó engan fyrirvara við þegar hann var undirritaður.

Mér finnst það eiginlega vera orðið Alþingi til vansa og ríkisstjórninni að gera ekki reka að því að fullgilda samninginn sjálfan með þeim efnisáhrifum sem það mun hafa á réttarstöðu fatlaðs fólks. Eitt er að breyta orðalagi, eins og lagt er til í því frumvarpi sem hér er til síðustu umræðu, en það er fyrst og fremst táknmynd en felur ekki í sér nein efnisleg réttindi fyrir fatlað fólk sem þarf að geta reitt sig á þau réttindi sem samningurinn sjálfur kveður á um.

Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu, en minni á mikilvægi þess að þingsályktunartillaga okkar fái efnisumfjöllun hér á Alþingi og að hún fái meðferð í nefnd og verði afgreidd til síðari umr. Það er ekki slíkur málahali hér í þinginu að það eigi að koma í veg fyrir að þjóðþrifamál af þeim toga fái meðferð í þinglegri umræðu. Ég held að það væri mjög mikilvægt innlegg. Þá mundi ég í framhaldinu hlakka til að fá hér frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum vegna innleiðingar á samningnum sem er hið raunverulega verkefni sem væri gaman að sjá Stjórnarráð Íslands einbeita sér að.