145. löggjafarþing — 44. fundur,  30. nóv. 2015.

fjármálafyrirtæki.

381. mál
[17:34]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi hv. efnahags- og viðskiptanefndar, frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum eins og það heitir.

Frumvarp þetta er flutt til að leiðrétta mistök sem urðu við gerð breytingartillagna við frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og lögum um fjármálafyrirtæki. Það var mál nr. 172. á þessu þingi og var afgreitt fyrr í þessum mánuði. Við uppsetningu breytingartillagnanna á þeim tíma féll einn málsliður brott úr 3. mgr. 103. gr. a laga um fjármálafyrirtæki þegar ætlunin var að nýr 8. málsliður bættist við greinina án þess þó að fella út gildandi lið. Málsliður sá sem féll brott vegna mistaka og hér er lagt til að verði bætt við lögin að nýju kom fyrst inn í lögin með breytingalögum nr. 78/2011, sem breyttu lögum nr. 161/2002, og kveður á um að nauðasamningsumleitanir slitabúa fari eftir því sem við getur átt eftir ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga með því fráviki að frestur samkvæmt 1. mgr. 51. gr. skuli vera átta vikur og slitastjórn gegni því hlutverki sem skiptastjóri hefur annars á hendi.

Með því frumvarpi sem hér er mælt fyrir er ekki um neina efnislega breytingu að ræða frá fyrri lögum heldur er eingöngu verið að koma inn aftur málslið sem var í lögum nr. 161/2002.

Ég mælist síðan til þess að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.