145. löggjafarþing — 44. fundur,  30. nóv. 2015.

sala fasteigna og skipa.

376. mál
[17:48]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Það er eins og í fyrra máli sem hér kom fram að maður má vart bregða sér af bæ án þess að menn fari að gera ýmsa hluti sem orka tvímælis. Til að halda öllum hlutum til haga var sá er hér talar framsögumaður í þessu máli sem var samþykkt á Alþingi 9. júlí, heildarlögum um sölu fasteigna og skipa. Eins og með önnur mannanna verk kann að vera að eitthvað hafi verið gert sem ekki stenst fyllilega skoðun. Þar á ég sérstaklega við vanhæfisregluna í 14. gr. laganna, hún er dálítið stíf og á ýmsum stöðum úti á landi þar sem eru fáar fasteignasölur og skyldleiki fólks mikill kann þetta að leiða til þess að þar verði enginn hæfur fasteignasali.

Með breytingunum er lagt til að upplýst verði um venslin og þá er þessu vikið til hliðar og sömuleiðis er það þannig í lögum um sölu fasteigna og skipa að þegar fasteign er seld er einhver aðili sem kaupir og sú venja hefur skapast hér á landi að seljandinn greiðir þóknun sem fyrirbyggir ekki það að kaupandi geti haft sér til ráðuneytis aðila fyrir utan þá fasteignasölu sem um er að ræða þannig að réttur kaupanda og seljanda á að vera þokkalega tryggður, í fyrsta lagi með því að upplýsa um vensl og í öðru lagi með þeirri sjálfsögðu heimild sem liggur í hlutarins eðli, að þeir aðilar sem eru að kaupa og selja geta kallað sér til aðstoðar fagmann eða þann sem þeir treysta vel sér til ráðuneytis.

Sömuleiðis er með orðunum „og einingafjölda“ í 4. gr. frumvarpsins ráðherra heimilað að fjalla um umfang námsins, en aðrar greinar í þessu frumvarpi skil ég bara ekki, afsakið. Mig þrýtur algerlega þekkingu. Til dæmis eru hér orðin „starfsheimild nemenda“. Ég veit ekki til þess að nokkurs staðar í þessu frumvarpi sé fjallað um nemendur í fasteignasölu og það kemur hér algerlega nýtt inn. Það hefur hvergi komið fram í gildandi lögum eða eldri lögum að sölumanni, sölufulltrúa eða hvaða starfsheiti sem viðkomandi ber sé ekki heimilt að sýna fasteign. Hér er allt í einu talað um það að sýna fasteign enda liggi fyrir samþykki seljanda þar að lútandi. Allt það sem er tíundað í 2. gr. þessa frumvarps til laga um breytingu á lögum um sölu fasteigna og skipa — ég tel að starfsmanni fasteignasölu sé heimilt að aðstoða. Ég les til dæmis á heimasíðum tveggja dómstóla í Reykjavík, hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og Hæstarétti, að þar eru aðstoðarmenn. Aðstoðarmenn aðstoða sennilega dómara við samningu dóma og á sama hátt eru aðstoðarmenn fasteignasala sem aðstoða við gerð söluyfirlits og kauptilboðs og aðstoða fasteignasala við gerð fjárhagslegs uppgjörs. Þetta liggur allt saman í hlutarins eðli og er algjör óþarfi að kveða frekar á um það í lögum, enda koma nemendur fyrst fyrir í væntanlegum breytingum á lögum, þar dúkkar þetta allt í einu upp í 8. gr. Ég tel þetta algeran óþarfa og alveg út í bláinn.

Sömuleiðis er í 5. gr. fjallað um að fasteignasalar hafi heimild til að ráða sér aðstoðarmenn. Það liggur bara í hlutarins eðli og þetta ákvæði er alger óþarfi.

Síðan er talað um 20 ára starfsreynslu og 50 ára lífaldur. Hvaðan koma þessar tölur? Eru þetta málefnalegar tölur eða falla þær bara af himnum ofan? Framsögumaður þessa máls, hv. þm. Frosti Sigurjónsson, segir að þetta eigi við um örfáa. Ég spyr þá: Ef það er vitað að þetta eigi við um örfáa, væri þá ekki rétt að hafa bara á hreinu hvað þetta eru margir og nefna í löggjöfinni að þetta eigi við um tiltekna aðila? Að sama skapi og ég hef áður sagt er þetta alger óþarfi.

Ég sit víst í þessari efnahags- og viðskiptanefnd sem flytur frumvarpið. Ég undanskil mig sem flutningsmann að þessu frumvarpi, ég vil bara að það komi fram. Ég tel að stærstur hluti þess sé óþarfi. Það er rétt og eðlilegt að bregðast við athugasemdum varðandi vensl og skyldleika og sömuleiðis með einingafjöldann, en hitt er alger óþarfi og það kemur þá fram í eðlilegri umfjöllun nefndarinnar. Ég tel að þetta eigi að ganga til nefndarinnar og ég ætla þá að yfirheyra aftur þá aðila sem koma fyrir nefndina um þessi atriði.

Að lokum kemst ég ekki hjá að geta þess að sumt í þessari hagsmunagæslu aðila er mér býsna ógeðfellt. Til dæmis hringir maður sem titlar sig sölumann með mikla starfsreynslu og segir að hann hringi fyrir hönd 400 sölumanna á fasteignasölum og hótar því að þessir 400 sölumenn sem flestir kjósi Sjálfstæðisflokkinn muni ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef þessu verði ekki breytt. Við svona hótanir er náttúrlega ekki hægt að búa. Ef þessir 400 menn vilja ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn ætla ég bara að segja að það eru til fleiri flokkar, en það eru 300 þús. neytendur í þessu landi og þessi löggjöf um sölu fasteigna og skipa er ekki til verndar sölumönnum, hún er ekki til verndar fasteignasölum — hún er til verndar neytendum. Ég spyr hér þannig að það liggi þá fyrir í umræðunni: Eru þessi atriði til aukinnar neytendaverndar eða til hvers er þetta? Eins og ég segi er þetta alger óþarfi.

Ég hef að gefnu tilefni farið í gegnum eldri lög og ný lög. Ég fæ ekki séð að nokkrar þær efnisbreytingar hafi orðið á lögum um sölu fasteigna og skipa frá eldri lögum utan það að einkaréttur til sölu á fyrirtækjum er felldur niður. Sömuleiðis er felld niður skylduaðild að Félagi fasteignasala, enda gekk hæstaréttardómur um að slíkt samræmdist ekki stjórnarskrá eða mannréttindasáttmálum. Annað í þessari löggjöf var löngu komið inn, þ.e. með löggjöfinni 2004. Hafi framkvæmdarvaldið ekki fylgt eftir löggjöf um sölu fasteigna og skipa er það bara því miður býsna dapurlegt.

Að svo mæltu reikna ég með því að þetta mál gangi til efnahags- og viðskiptanefndar til eðlilegrar meðferðar.

Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.