145. löggjafarþing — 44. fundur,  30. nóv. 2015.

Haf- og vatnarannsóknir.

199. mál
[17:58]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um Haf- og vatnarannsóknir og frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar.

Minni hlutinn bendir á að í frumvörpunum er mælt fyrir um að öllum starfsmönnum Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar verði sagt upp en þeir ráðnir til hinnar nýju stofnunar, Haf- og vatnarannsókna.

Minni hlutinn áréttar það sem fram kom í áliti hans á síðasta þingi þegar frumvörp sama efnis voru til umfjöllunar. Þar kom fram að brýnt væri að huga mun betur að málefnum starfsmanna við sameiningu stofnananna. Einnig var bent á að því hefði verið haldið fram fyrir nefndinni að ekki hefði verið haft fullnægjandi samráð við starfsmenn og stéttarfélög þeirra til að tryggja að kjör starfsmanna skertust ekki. Þá lögðu starfsmenn áherslu á að farið yrði að ákvæðum laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Í áliti minni hlutans á síðasta þingi var einnig vísað til skýrslu fjármálaráðuneytisins frá desember 2008 um sameiningu ríkisstofnana og tengdar breytingar þar sem orðrétt sagði eftirfarandi:

„Sé gengið út frá því að ætlunin sé að byggja nýja stofnun á mannauði þeirra stofnana sem verða sameinaðar, þarf að hugleiða vandlega á öllum stigum ferlisins hvaða áhrif sameiningin hefur á starfsmenn og hvað þeir bera úr býtum. Ekki er nóg að skoða eingöngu hverju breytingarnar skila hlutaðeigandi stofnun, ríkissjóði, notendum þjónustunnar eða þeim sem standa fyrir þeim.“

Minni hlutinn tekur enn undir framangreint og ítrekar að sameiningin er ekki að undirlagi starfsmanna og má auk þess benda á að uppsagnir og fyrirheit um endurráðningu á óljósum kjörum skapa óróa meðal þeirra og auka líkur á deilum um kjaramál. Að auki má benda á að í umsögn skrifstofu opinberra fjármála við frumvarpið á síðasta þingi kom fram að erfitt gæti verið að meta hver hagræðing af sameiningu stofnananna yrði og gæti einskiptiskostnaður jafnframt verið umtalsverður, svo sem biðlaun, undirbúningsvinna og breytingar á húsnæði.

Við umfjöllun um málið í nefndinni nú var bent á að lykillinn að farsælum umbótum væri að starfsmenn væru með í ráðum frá upphafi auk þess sem það þyrfti að vera hafið yfir allan vafa að kjör og réttindi þeirra skertust ekki við breytinguna. Einnig var lýst efasemdum um þá aðferð að leggja störf niður enda verða verkefnin þau sömu og því í raun aðeins um breytingu á skipulagi stofnananna að ræða en ekki að sjálf verkefnin verði lögð niður. Bent var á við umfjöllun um málið að stjórnvöld gætu gert breytingar á umræddum störfum á grundvelli 19. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Jafnframt hefur verið bent á það fyrir nefndinni að stjórnvöld hafi áður valið aðra leið en niðurlagningu starfa við sameiningu stofnana. Minni hlutinn telur rétt að gæta jafnræðis gagnvart starfsmönnum hins opinbera við sameiningu stofnana og gæta að meðalhófi. Þegar Samgöngustofa var stofnuð var farið að lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002, og sýndi það vilja til að starfsmenn héldu launakjörum, mati á menntun auk annarra réttinda. Helsta markmið þeirra laga er að ef nýr aðili tekur við verkefnum annars aðila á það ekki að leiða til þess að starfsmenn þurfi að sætta sig við verri kjör. Minni hlutinn telur því brýnt að meiri hlutinn vísi skýrlega til laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum í breytingartillögu sinni.

Minni hlutinn bendir á að ekkert er fjallað um rökin fyrir sameiningu stofnananna í áliti meiri hlutans og telur að hvorki hafi verið sýnt fram á faglegan né fjárhagslegan ávinning af sameiningunni. Með öðrum orðum er ekki rökstutt hvers vegna Veiðimálastofnun skuli sameinast Hafrannsóknastofnun og telur minni hlutinn ekki augljóst að Veiðimálastofnun sé best komin undir málefnasviði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Jafnframt bendir minni hlutinn á að umræður um sameiningu stofnana almennt hafa staðið yfir um nokkurt skeið og hafa til að mynda verið færð rök fyrir því að Veiðimálastofnun gæti vel átt heima undir umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og þá væri vert að kanna möguleikann á sameiningu hennar við Umhverfisstofnun eða Náttúrufræðistofnun Íslands.

Að lokum bendir minni hlutinn á, og áréttar álit sitt frá síðasta þingi, að mikil áskorun felst í því að koma nýrri stofnun á laggirnar þannig að faglegur ávinningur verði tryggður. Afar brýnt er að standa vel að því ferli og er óskynsamlegt að raska því með deilum um kjaramál og stöðu starfsmanna sem eru helsti auður stofnananna.

Minni hlutinn stendur að breytingartillögu við málið sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir þetta ritar sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Ég stend að breytingartillögu sem atvinnuveganefnd hefur lagt fram og verður kynnt hér á eftir. Ég var sjálf ekki í atvinnuveganefnd þegar sú breytingartillaga kom fram heldur varaþingmaður minn, Lárus Ástmar Hannesson, og er hann skrifaður fyrir þeirri breytingartillögu sem verður kynnt hér um nafn á þeirri stofnun sem kemur út úr sameiningu þessara stofnana ef frumvarpið verður samþykkt og gert að lögum.

Ég mun styðja breytingartillögu um nafngiftina. Annars munum við vinstri græn sitja hjá í þessu máli og vísa ég til þess sem kemur fram í nefndaráliti mínu um þá afstöðu.