Haf- og vatnarannsóknir.
Hæstv. forseti. Ég kem hingað fyrst og fremst til að kynna breytingartillögu á nafni hinnar nýju sameinuðu stofnunar sem ég er 1. flutningsmaður að. Það er skemmst frá því að segja, eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir tæpti á áðan, að hlutirnir hafa breyst þannig að í dag eru allir nefndarmenn atvinnuveganefndar á tillögu um breytt nafn. Þetta er einfaldlega breytingartillaga við frumvarp til laga um Haf- og vatnarannsóknir, 199. mál á þskj. 466. Eftirtaldir þingmenn, auk þess sem hér stendur, standa að þessari tillögu: Lárus Ástmar Hannesson, Jón Gunnarsson, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson, Heiða Kristín Helgadóttir, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir, allt hv. þingmenn í atvinnuveganefnd. Eins og hér hefur komið fram styður Lilja Rafney Magnúsdóttir, hv. nefndarmaður í atvinnuveganefnd, þessa tillögu líka en hv. þm. Lárus Ástmar Hannesson var varamaður á þingi í hennar stað þegar málið var tekið út og þess vegna er nafn hans á tillögunni.
Tillagan byrjar svona, með leyfi forseta:
„1. Í stað orðanna „Haf- og vatnarannsóknir“ í 1. gr. komi: Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna.
2. Í stað orðanna „Haf- og vatnarannsókna“ í 1. mgr. 3. gr. komi: Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnunar hafs og vatna.“
Síðan eru á nokkrum öðrum stöðum í frumvarpinu orðin Haf- og vatnarannsóknir tekin út í samræmi við þessa breytingartillögu. Í 10. lið stendur, með leyfi forseta:
„Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna.“
Það er sem sagt lagt til að hin nýja stofnun heiti Hafrannsóknastofnun með þessu undirheiti sem auðvitað kemur fram í öllum gögnum, svo sem bréfum og skýrslum.
Ég ætla að leyfa mér að flytja nokkur orð um þessa nafnbreytingartillögu og vil segja í upphafi að það sem ég mun flytja hér er mjög lærð ræða unnin af fyrrverandi alþingismanni, Merði Árnasyni, sem hefur aðstoðað mig við að setja fram rökstuðninginn. Ég verð að segja til gamans að hann hefur áður aðstoðað mig, hann aðstoðaði mig meðan ég var samgönguráðherra þegar unnið var að því að skilja að framkvæmdastofnanir og eftirlitsstofnanir í samgöngumálum. Hann var einn af höfundum heitisins á framkvæmdastofnunum Vegagerðar og Siglingastofnunar sem runnu saman í eitt og vildi kalla hana einfaldlega Vegagerð með þeim rökstuðningi að sjófarendur fara líka um veg.
Til rökstuðnings fyrir þessu nafni vil ég sem sagt segja eftirfarandi:
Það er erfitt verk að finna nafn á þessa nýju stofnun. Þar þarf að koma að hugtakinu rannsókn og líka ráðgjöf, svo sem rannsakað er í hafinu, stöðuvötnum, á landi og í ám. Sem betur fer er íslenskan liðug og hægt að skila ám og stöðuvötnum með einu orði, vötnum, samanber fræg orð Vésteins Vésteinssonar: „Nú falla vötn öll til Dýrafjarðar“ og svo frægt og ævagamalt ákvæði vatnalaga um að vötn öll skuli renna sem að fornu hafi runnið. Ekkert samheiti er hins vegar til um haf og vötn. Vandamálið sem eftir stendur er að koma saman í eitt heiti hafi, vatni og rannsóknum. Þá vantar það líka að um sé að ræða vinnustað á vegum hins opinbera.
Það má segja að heitið í frumvarpinu, Haf- og vatnarannsóknir, sé mjög óþjált. Þess vegna er rökstuðningurinn þessi:
Í fyrsta lagi er um að ræða tvö samsett orð, hið fyrra stytt og tengt með samtengingunni „og“. Þetta er auðvitað alkunna en ekki hentug leið þegar um heiti er að ræða. Nokkur ráðuneyti heita slíkum nöfnum, en í reynd nota flestir bara aðra samsetninguna og tala til dæmis um atvinnuvegaráðuneyti og umhverfisráðuneyti og gleyma nýsköpun og auðlindum.
Í öðru lagi vill svo illa til að fyrri liðirnir passa illa saman. Málfræðingar segja að til séu tvær aðalleiðir til að búa til samsett íslenskt orð með svokallaðri stofnsamsetningu og svokallaðri eignarfallssamsetningu. Bæjarheitið Reykholt telst vera stofnsamsetning en bæði Reykjafjörður og Reykjavík eru eignarfallssamsetningar. Í frumvarpsheitinu er hvort tveggja, orðið hafrannsóknir er stofnsamsett en vatnarannsóknir eingarfallssamsett.
Í þriðja lagi vantar í þetta heiti hvers kyns fyrirbæri um er að ræða. Heiti ríkisstofnana enda langflest á stofnun, stofa, stöð eða miðstöð, nefnd og sýsla eða þau bera heiti sem lýsa glögglega starfsvettvangi þeirra, samanber skóli, spítali, sjúkrahús og sjóður. Svo eru stofnanir sem heita í höfuðið á embættinu sem kemur við sögu. Dæmi: Lögreglustjórinn á Austurlandi og Umboðsmaður barna.
Eftir svolitla leit sé ég bara eina hliðstæðu við heitið sem lagt er til í frumvarpinu, Íslenskar orkurannsóknir. Þar er hins vegar um að ræða sjálfstætt fyrirtæki, þótt það sé í ríkiseigu, og varð það til 2003 úr rannsóknasviði, svo sem fyrirtæki sem sér um þróun og greiningu í menntarannsóknum. Ég sé enga ástæðu til að draga úr því um hina nýju stofnun að hún sé á vegum ríkisins og beri svipað heiti og samsvarandi stofnanir, svo sem Fiskistofa, Matvælastofnun, Náttúrufræðistofnun, Nýsköpunarmiðstöð, Orkustofnun, Umhverfisstofnun o.s.frv. Þess vegna er tillaga mín að hin nýja stofnun heiti í höfuðið á annarri þeirra stofnana sem inn í hana renna, Hafrannsóknastofnun, sem yrði þá nafnið. Hún gæti áfram verið kölluð Hafró en heiti hinnar stofnunarinnar, Veiðimálastofnun, hentar mun verr fyrir nýju stofnunina. Þar veldur bæði stærðarmunur og efnisleg ástæða.
Hin nýja stofnun fæst vissulega við veiðar í sjó og vötnum en einnig margt fleira, bæði í tengslum við nytjar og rannsóknir almenns eðlis. Ljóst er að sú aðferð getur valdið sárindum að láta gamalt heiti halda sér við sameiningu af þessu tagi. Reynslan sýnir þó að slík sár gróa fljótt ef sameining tekst vel að öðru leyti. Um þetta eru ýmis nýleg dæmi. Eitt er Veðurstofa Íslands sem svo hét áfram eftir sameiningu við vatnamælingar úr Orkustofnun. Annað er Vegagerð sem valið var sem heiti á nýrri framkvæmdastofnun eftir uppstokkun á samgöngusviði þannig að nú er til undirstofnun, siglingasvið Vegagerðarinnar. Þriðja dæmið er svo Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum þar sem heiti einnar íslenskustofnunar af fimm var valið sem aðalheiti við sameiningu fimm stofnana á þessu sviði.
Sú leið sem hér er lögð til er í nokkuð sama dúr og þetta síðasta dæmi. Aðalheitið kemur frá annarri af gömlu stofnuninni, en með því er nánari skýring í undirheiti þar sem nánar er skýrt verksvið stofnunarinnar, þ.e. Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna.
Virðulegi forseti. Þetta er sá rökstuðningur sem ég vil færa fram og við sem stöndum að þessari tillögu. Ég fagna því alveg sérstaklega að öll nefndin hafi sameinast um að flytja hana. Ég er viss um að það verður til mikilla bóta. Án þess að ég ætli að lengja þessa umræðu vil ég bara segja að þegar menn fara að tala um til dæmis veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, eins og er sagt í dag, geta þeir talað um veiðiráðgjöf haf- og vatnarannsókna eða hvað við viljum hafa það. Ég held að ég hafi fært fram nógu mörg rök fyrir þessu sem sést meðal annars á því að allir nefndarmenn í atvinnuveganefnd eru flutningsmenn að þessari breytingartillögu.
Ég vil bara í lokin ítreka fyrri ræðu mína um það að leggja stofnunina niður, en fagna því líka að samþykkt hafi verið við 2. umr. breytingartillaga vegna réttinda starfsmanna og um réttarfærslu á milli sem ég tel hafa verið til mikilla bóta þó að ég hafi efnislega verið ósammála því að fara þá leið að leggja stofnanirnar fyrst niður og sameina svo í nýja.
Að lokum óska ég nýrri stofnun alls hins besta í störfum sínum og starfsmönnum alveg sérstaklega. Ég vonast til þess að í nýrri sameinaðri stofnun verði unnið jafn mikið og öflugt starf og unnið er nú bæði hjá Hafrannsóknastofnun og Veiðimálastofnun.