145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

störf þingsins.

[15:38]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar einnig að gera stjórnarskrána að umræðuefni undir liðnum um störf þingsins þar sem stjórnarskráin var talin ein af forsendum þess að við gætum gert upp hrunið. Það á sömuleiðis við um þá hæstv. ríkisstjórn sem situr nú á þingi, hún lofaði því einnig að koma í gegn nýrri stjórnarskrá. Hins vegar virðist ekki vera vilji í verki hjá hæstv. ríkisstjórn til að koma henni í gegn og ekki virðist ætla að linna þessum endalausu lokafundum hjá stjórnarskrárnefnd. Það er hreinlega kominn tími til að hæstv. ríkisstjórn segi hreint út, og hætti að draga þjóðina og þingið á asnaeyrunum, hver skoðun hennar er á nýrri stjórnarskrá og þeim breytingum sem núverandi stjórnarskrárnefnd ætlar að leggja fram.

Við erum í tímaþröng og núna er algjör forsendubrestur fyrir því að við náum að klára þetta mál fyrir tilsettan tíma til að málið geti farið í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningunum. Nú verðum við bara að fara að fá að vita hvort það sé pólitískur vilji hjá hæstv. ríkisstjórn að standa við stóru orðin um þá nýju stjórnarskrá sem var forsenda fyrir heilbrigðara stjórnmálaumhverfi og öryggi. Almenningur er því sammála, almenningur vill nýja stjórnarskrá.

Því verð ég að fá að velta fyrir mér hvort sú ríkisstjórn sem nú situr eigi enn þá samleið með þjóðinni því að hún virðist vera rúin trausti. Þá spyr ég hvernig haldið hefur verið utan um málin varðandi núverandi stjórnarskrárnefnd. Hvernig hefur það gengið? Vill hæstv. ríkisstjórn nýja stjórnarskrá eða ekki? Það verður að koma fram sem fyrst.


Efnisorð er vísa í ræðuna