145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

störf þingsins.

[15:49]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Til hamingju með daginn. Mig langar að ræða um greiðsluþátttöku í lyfjakostnaði sjúklinga og fjöldatakmarkanir sem hafa verið teknar upp á fjölda sjúklinga sem geta fengið niðurgreiðslu lyfjagreiðslunefndar. Ég minni á það að einn af hornsteinum siðaðra samfélaga er heilbrigðiskerfið. Það hefur ríkt fram til þessa sú samfélagssátt á Íslandi að það skuli hlúð að veiku fólki án þess að því sé mismunað. Sú sátt hefur aldrei verið rofin fyrr en núna að tekin var upp sú tilhögun að greiðsluþátttaka ríkisins í lyfjakostnaði skyldi miðast við fjölda sjúklinga en ekki ástand þeirra.

Samkvæmt fyrirmælum sem heilbrigðisráðherra hefur gefið er lyfjagreiðslunefnd sett í þá stöðu að beita fjöldatakmörkunum á sjúklinga þegar ákvörðun er tekin á niðurgreiðslu lyfja. Það þýðir að læknum ber, ef farið er að tilmælunum, að neita sjúklingum um lyf eftir að tilteknum sjúklingafjölda er náð sem þarf á þessu lyfi að halda. Strax í apríl síðastliðnum var heilbrigðisráðherra gerð grein fyrir því með bréfi frá formanni lyfjanefndar að þá þegar væru fullnýttar allar heimildir fyrir tiltekin krabbameinslyf, gigtarlyf og augnlyf og að nýir sjúklingar sem þyrftu á lyfjunum að halda fengju þau ekki lengur. Þetta bréf er grafalvarlegt. Það gagnrýnir óásættanlegt misrétti sem í þessu felst og að læknar séu settir í þá erfiðu stöðu að útskýra fyrir sjúklingi sem nauðsynlega þarf á lyfi að halda að það standi honum ekki til boða vegna þess að tilteknum fjölda sjúklinga sé náð. Þetta stangast á við heilbrigðislög, þetta stangast á við þann rétt sem sjúklingi er áskapaður í lögum og stjórnarskrá. Formaður lyfjanefndar hefur fyrir löngu skorað á heilbrigðisráðherra að afnema þessa fjöldatakmörkun. (Forseti hringir.) Umboðsmaður Alþingis hefur gert alvarlegar athugasemdir við ráðuneytið vegna þessa, en ráðuneytið og ráðherrann hafa daufheyrst við því. (Forseti hringir.) Ég legg til að þingið taki nú til sinna ráða varðandi þetta mál.


Efnisorð er vísa í ræðuna