145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

Haf- og vatnarannsóknir.

199. mál
[16:28]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um sameiningu stofnananna Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar. Vinstri græn munu sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.

Við teljum hvorki hafa verið sýnt fram á faglegan né fjárhagslegan ávinning af sameiningu þessara stofnana. Ekki hefur heldur verið staðið vel að kjörum og réttindum starfsmanna, þau hafa ekki verið tryggð nægjanlega. Við teljum að ekki hafi verið nægjanlega vel staðið að þeim málum. Við vitum að mannauður þessara fyrirtækja er það sem skiptir mestu máli og hann þarf að tryggja.

Við sitjum því hjá við sameiningu þessara stofnana en ef frumvarpið verður samþykkt munum við styðja þá breytingartillögu sem verður kynnt um að stofnunin hljóti annað nafn en var lagt til (Forseti hringir.) og styðjum þá breytingartillögu um nýtt nafn stofnunarinnar.