145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

Haf- og vatnarannsóknir.

199. mál
[16:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að sameining þessara tveggja stofnana sé komin til lokaafgreiðslu. Hún er byggð á mjög langri undirbúningsvinnu í það minnsta tveggja ráðgjafarfyrirtækja og í það minnsta tveggja ríkisstjórna og kemur núna loks til framkvæmda. Ég gleðst yfir því.

Í vinnuplagginu var lagt til að stofnunin héti annað en hér er lagt til í breytingartillögu. Ég ítreka að hér er verið að sameina tvær jafn stæðar stofnanir. Ég mun líta svo á þó að þingheimur breyti þeirri tillögu í Hafrannsóknastofnun að það breyti því í engu að hér er um að ræða sameiningu tveggja stofnana sem standa jafnfætis. Nafnið á til lengri tíma ekki að skipta neinu máli, við horfum til áratuga. Stofnunin sem slík og mannauðurinn þar inni skiptir máli og ég treysti því að þetta verði rannsóknum á vatni og hafi til góðs til langs tíma.