145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

happdrætti og talnagetraunir.

224. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar um happdrætti og talnagetraunir. Í frumvarpinu er lagt til að leyfi þeirra aðila sem starfrækja happdrætti og talnagetraunir verði framlengt til 1. janúar 2034. Leyfin hefðu að öðrum kosti runnið út 1. janúar 2019 og þykir rétt miðað við greinargerð sem fylgir frumvarpinu að framlengja þessar heimildir tímanlega vegna skipulagningar og rekstraröryggis.

Nokkrar umsagnir bárust um málið og við höfum fengið til okkar gesti. Í umsögnunum er því aðallega fagnað að frumvarpið komi fram en þó er sums staðar bent á að eðlilegt væri að fleiri félagasamtök væru aðilar að því verkefni sem lögin fjalla um. Í umsögn Íslandsspila er lagt til Íslandsspilum verði heimilað að bjóða upp á starfsemi sína á netinu sem þessi lög ná til og nú er svo komið að fleiri umsagnir um slíkt hafa borist nefndinni. Því kalla ég málið aftur til nefndar og munum við taka þar fyrir þessi erindi á fundi hennar í fyrramálið. Málið þarf því að fara til nefndar á milli umræðna.

En við viljum árétta hér og gerum það í nefndaráliti okkar að frumvarpið lýtur einvörðungu að framlengingu starfsleyfa en ekki að því hvernig breytingar sé nauðsynlegt að gera á umhverfi happdrættismála hér á landi, þannig að það komi skýrt fram. Við bendum því á að fram kom á fundi nefndarinnar að til stendur að endurskoða löggjöfina um þennan málaflokk og lýsum við yfir stuðningi við það.

Við leggjum til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt en að sjálfsögðu munum við taka það fyrir í nefndinni á morgun. Undir nefndarálitið skrifar sú sem hér stendur og hv. þingmenn Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Karl Garðarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir og Vilhjálmur Árnason.