145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

lokafjárlög 2014.

374. mál
[17:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra kann auðvitað fjárlög ríkisins utan að svo ég vona að hann virði það mér til betri vegar þó að ég leyfi mér að óska eftir frekari upplýsingum frá honum um eitt tiltekið atriði.

Hæstv. ráðherra fór með mjög athyglisverðan parsus um stöðu Íbúðalánasjóðs og ég heyrði ekki betur en að hann væri að greina frá því að sjóðurinn hefði ekki þurft að nýta fjárveitingar sem samþykktar voru honum til handa, mér heyrðist að upphæð 3 milljörðum. Það eru góðar fréttir.

Mig langar, fyrst við erum í umræðum um lokafjárlögin, að biðja hæstv. ráðherra í örstuttu máli að fara yfir stöðu sjóðsins og framtíðarhorfur. Ég veit að hann getur það með hinar stærstu línur, örugglega á þeim tveimur mínútum sem hann hefur. Ég tel að þetta séu mjög merk tíðindi sem hér er verið að flytja.