145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

lokafjárlög 2014.

374. mál
[17:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það er nú kosturinn við hæstv. efnahags- og fjármálaráðherra að hægt er að eiga við hann vitrænar umræður og hann reynir að minnsta kosti eftir bestu getu að svara.

Við höfum hér verið að tala um Íbúðalánasjóð. Þá er náttúrlega nærtækt að ræða aðeins um stöðu húsnæðismála. Ég ætla þó ekki að þreyta hæstv. ráðherra á því. En þetta er samt sem áður sá málaflokkur sem við í stjórnarandstöðunni höfum kannski verið að bera okkur mest eftir að hæstv. ríkisstjórn sýni á spilin gagnvart.

Nú eru bráðum að verða liðin þrjú ár frá því hæstv. ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum og allan þann tíma hafa menn verið að bíða eftir Godot. Menn hafa verið að bíða eftir því að sjá skýrar línur um framhald húsnæðismála, hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst reyna að skipa þeim málum til vegar. Hvað eftir annað hafa menn verið að óska eftir einhvers konar stefnumótun varðandi málefni og framtíð Íbúðalánasjóðs frá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra.

Ég rifja það upp að ég held að það hafi verið eitt af fyrstu verkum hjá mínum þingflokki, þegar kjörtímabilið hófst, að verða við bón hæstv. ráðherra um að skipa mannskap í eina eða tvær nefndir, held ég, sem áttu að fjalla um þetta. Málið var svo langt komið að komnar voru hugmyndir sem þingflokkarnir voru byrjaðir að ræða um og vörðuðu það með hvaða hætti ætti að fara með Íbúðalánasjóð í framtíðinni. Muni ég rétt þá voru ýmsir valkostir reifaðir í þessum nefndum, en síðan heyrist ekkert af málinu.

Nú getur það vel verið, og er í sjálfu sér alveg hárrétt hjá hæstv. fjármálaráðherra, að það megi segja að við séum að sjá, loksins þegar við erum að rísa úr kafinu eftir samfellt hagvaxtarskeið frá miðju ári 2010, að bankarnir, sem hafa notið óvanalegs góðæris á síðustu árum, séu hugsanlega að hefja síðbúna samkeppni um húsnæðislán á hinum frjálsa markaði. Hins vegar er athyglisvert að það sem knýr bankana til þess er reyndar hið félagslega kapítal — fyrir atbeina Lífeyrissjóðs verslunarmanna, sem lækkaði vexti á sínum húsnæðislánum, sem leiddi til þess að að minnsta kosti einn hinna stóru banka hefur fylgt í fótsporið, þó ekki jafn kröftuglega. Þar er um að ræða breytingar sem skipta verulega miklu máli.

Maður veltir því auðvitað fyrir sér hvernig á því stendur að þjóðarbankinn, Landsbankinn blessaður, hefur að minnsta kosti ekki enn fylgt í fótsporið. En staðreyndin er sú að þegar menn eru að tala um Ísland, hvort Ísland sé gott eða slæmt land, og um það sér maður nánast daglegar umræður á á samfélagsmiðlunum, þá er það nú þannig að mínu viti að Ísland er mjög gott samfélag; hér horfir allt til heldur betri vegar. Hér hafa verið samfellt að störfum fjórar ríkisstjórnir sem allar hafa lagt sitt af mörkum til þess að reyna að greiða úr þeim ógöngum og þeirri flækju sem skapaðist 2008.

Það er einn blettur á Íslandi, það er eitt mál sem gerir það sérstaklega erfitt að vera ungur Íslendingur í dag, og það eru húsnæðismálin. Það er þess vegna sem menn spyrja vitaskuld: Hvað dvelur þann langa orm, hvar er stefnan í húsnæðismálum? Ég ætla ekki endilega að fara að krefja hæstv. fjármálaráðherra um svör við því, en hins vegar er rétt að hann sem oddviti annars stjórnarflokksins viti að menn eru orðnir mjög langeygir eftir að sjá lausnir í þessum efnum.

Að því er varðar Íbúðalánasjóð þá get ég í sjálfu sér tekið undir með hæstv. ráðherra að þar fór margt úrskeiðis. Hæstv. ráðherra fór hér með ágæta tölu þar sem hann rakti það. Það er hugsanlegt að það sé kannski fyrst og fremst tvennt sem olli því, það var með hvaða hætti fé fór til leigufélaga á frjálsum markaði, einkum hér í Reykjavík, sem tapaðist allillilega, og sömuleiðis að menn báru ekki gæfu til þess að setja á uppgreiðslugjald, sem þó var búið að benda á árum saman. Ekki ætla ég að munnhöggvast við hæstv. fjármálaráðherra um það, en hann mætti gjarnan fara í smiðju þeirra höfunda sem skrifuðu skýrslu um Íbúðalánasjóð á sínum tíma. Þar sæi hann kannski að þar er nú einkum og sér í lagi sektin, ef sekt skyldi kalla á sínum tíma, lögð við dyr ríkisstjórnar sem hvorki ég né síðasti hv. þingmaður stjórnarandstöðunnar, sem höfum tekið þátt í þessari umræðu, berum nokkra ábyrgð á.

Það er hins vegar fullkomlega lögmætt að hæstv. ráðherra ræði framtíð Íbúðalánasjóðs. Hann er líklega, eins og okkur í stjórnarandstöðunni, tekið að lengja eftir því að sjá framhald á þeirri vinnu sem var af hálfu hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra í upphafi þessa kjörtímabils og ég var að spyrja eftir hér áðan. Það bendir allt til þess og er allt að teikna sig upp til þess að að minnsta kosti að því er varðar þennan þátt húsnæðismálanna muni bara ekkert gerast á þessu kjörtímabili.

Það er guðsþakkarvert að miklu lægri upphæðum hefur þurft að verja til Íbúðalánasjóðs, vegna skorts hans á eigin fé, en menn spáðu hér í þann mund sem staðan var hvað verst, þegar lánin voru fryst. Það voru langar pípur sem lánin voru þá fest í. Það var til hagsbóta fyrir neytendur. Við skulum ekki gleyma því að að stórum hluta voru neytendur þessarar vöru sem Íbúðalánasjóður bauð upp á þeir sem verst voru staddir á lánamarkaðnum. Þetta var eitt af því sem gripið var til til að lina þjáningar manna, var reyndar gert hér með samþykki allra á hinu háa Alþingi. En þá töluðu menn um þrefalt hærri upphæðir sem þyrfti að verja í það að mæta kostnaðinum af þeirri stöðu sem komin var upp í sjóðnum. Það var verið að tala hér um fast að þrefalt hærri upphæðir, eða 150 milljarða. Hér í þessum þingsal supu menn hveljur. Og ef það er einhver einn ástkær þingmaður sem ég sakna hér sem vinar í stað þá er það hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sem hafði uppi stórar ræður og kvalafullar á sínum tíma og spáði mjög svörtu fyrir framtíðina. Niðurstaðan varð þrátt fyrir allt miklu betri.

En mig langar þá til þess að spyrja hæstv. ráðherra eftirfarandi spurningar: Get ég dregið þá ályktun af orðum hans hér í andsvari og ræðu áðan að ekki muni koma til frekari fjárveitingar af hálfu ríkisins til sjóðsins? Erum við sem sagt búin að sigla í gegnum þennan hörmungarbrimskafl?

Í öðru lagi vil ég líka segja að mér finnst það fullkomlega lögmætt hjá hæstv. ráðherra að hafa skoðun á því hvernig sjóðurinn á að verða í framtíðinni. Ég fæ ekki betur séð en að hæstv. ráðherra sé í reynd að segja að hans viðhorf sé það að það eigi að slá Íbúðalánasjóð af. Það er erfitt að leggja aðra merkingu í þau orð hæstv. ráðherra þegar hann segist ekki sjá neina sérstaka ástæðu fyrir því að almenni markaðurinn geti ekki tekið við þessum almennu húsnæðislánum, sem hann kallaði svo. Það kann vel að vera. Þó tek ég algjörlega undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér áðan, sérstaklega að því er varðar landsbyggðina.

Mig langar þá að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, sem sjaldnast verður uppvís að því að tala út í loftið, og sem ég hef stundum lýst sem erfiðum andstæðingi vegna þess að hann hefur sína ídeólógíu á hreinu: Ef hæstv. fjármálaráðherra er kominn að þeirri niðurstöðu að það eigi bara að slá sjóðinn af þá hlýtur hann að hafa hugsað til þess með hvaða hætti eigi þá að sinna þörfum landsbyggðarinnar. Ég er sannfærður um að ég og hæstv. ráðherra erum báðir þeirrar skoðunar að við viljum styrkja stöðu landsbyggðarinnar eins og hægt er, en telur hæstv. ráðherra að bankamarkaðurinn sé reiðubúinn til að taka við þeim böggum sem því fylgja að ætla að sinna landsbyggðinni á sama hátt og Íbúðalánasjóður gerði? Telur hæstv. ráðherra hægt að leggja niður Íbúðalánasjóð án þess að við séum þá búin að hugsa fyrir einhvers konar kerfi sem tryggir það að þeir sem eiga heima utan hins auðsæla suðvesturhorns geti með sama hætti og við hin komið sér upp þaki yfir höfuðið?

Að lokum þetta: Það er ekki hægt að tala um húsnæðismálin öðruvísi en að taka á þessum svarta bletti sem þau eru í dag. Leigumarkaðurinn þar sem ungu fólki er bókstaflega hent út í hin villtu lögmál frumskógarins út af því að unga fólkið okkar í dag, þau sem ekki eiga þokkalega efnaða foreldra sem geta reitt fram eigið fé sem þarf, eða geta önglað upp í það, á engan annan kost en þann að fara út á markað þar sem menn eru að greiða kannski tvöfalt á við það í hverjum mánuði sem þeir þyrftu að greiða af lánum sínum, verðtryggðum húsnæðislánum. Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að hans ríkisstjórn, eða eftir atvikum hvaða ríkisstjórn sem er, greiði úr þessu?

Fyrir skömmu sendu Samtök atvinnulífsins, fyrir hönd Mannvirkjasambandsins, okkur mjög vel útfærðan bækling sem kom í hólf þingmanna. Þar var sýnt fram á hver þörfin væri bara til þess að taka á móti því unga fólki sem á ári hverju kemur út á markaðinn og hins vegar spár sambandsins um byggingar. Maður sá bara að það gliðnaði þarna á milli. Þá mundi reynslan og lögmál markaðarins segja mér, og örugglega hæstv. ráðherra, að afleiðingin hlýtur að verða sú að leiguverð heldur áfram að hækka. Þetta tel ég vera óttaefni vegna þess að ég tel að þetta sé svo snar þáttur í lífsbaráttunni að þetta sé líklegt til þess að verða drifafl og hvati að því að unga fólkið okkar, ekki síst það sem hefur mesta sjálfsbjargarviðleitni og frumkvæði, tapist úr landi.

Eitt af því sem við ættum öll, hvar sem við stöndum í flokki, að reyna að ná saman um er að bæta úr þessari stöðu. Þetta er bletturinn á Íslandi. Þetta er það eina sem mér í dag finnst kannski vera tilefni til þess að staldra við þegar maður er spurður: Er Ísland gott samfélag? Mér finnst það vera með bestu samfélögum, en ég verð að viðurkenna að þetta er svartur blettur á samfélagi okkar. Þarna er munurinn á millum Íslands og þeirra samfélaga sem við þekkjum svo ágætlega á Norðurlöndunum, hann er mjög mikill, jafnvel svakalegur á köflum.

Þessar spurningar þætti mér vænt um að hæstv. fjármálaráðherra mundi kannski, í skýru máli eins og hans er von og vísa, reyna að upplýsa mig aðeins um.