145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

lokafjárlög 2014.

374. mál
[17:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að bregðast hér við nokkrum spurningum. Spurt er hvort þess sé að vænta að frekari fjárveitingar þurfi að ganga til Íbúðalánasjóðs. Ekki er hægt að fullyrða neitt um það, en í fjárlagafrumvarpinu birtist áætlun fyrir næsta ár og það getur farið eftir ýmsu hvort frekari fjárveitingar mun þurfa.

Varðandi framtíðina sé ég ekki þörf fyrir Íbúðalánasjóð á þessum almenna húsnæðislánamarkaði, en það verður þá að vera tryggt hvernig fólk utan höfuðborgarsvæðisins, sérstaklega úti á landsbyggðinni sem sagt, getur haft aðgang að tryggri húsnæðisfjármögnun. Við getum séð fyrir okkur ýmsar leiðir í því. Ein væri sú að vera með einhvers konar alþjónustukvöð á þá sem vilja vera starfandi á þessum markaði, að þeir séu einfaldlega ekki í því að veita húsnæðislán án þess að láta þau standa til boða fyrir landið allt. Aðrar leiðir koma líka til greina.

Ég tek eftir því að hv. þingmaður hefur áhyggjur af húsnæðismarkaðnum almennt. Það er kannski um húsnæðismarkaðinn almennt að segja að það er athyglisvert að þrátt fyrir að við getum verið sammála um að það er vandi fyrir ungt fólk að koma sér þaki yfir höfuðið virðast fasteignir almennt ekki vera komnar langt upp fyrir byggingarkostnað, það virðist að minnsta kosti ekki almennt vera mikil húsnæðisbóla um þessar mundir. Það kann þó að vera að fasteignaverð sé komið upp úr þakinu á afmörkuðum svæðum, en meginvandi húsnæðismarkaðarins á Íslandi er háir vextir. Þetta tengist þess vegna inn í efnahagsmálin almennt.

Ég tek undir það að meðan framboðið vex ekki þá er því miður við því að búast að hvort tveggja, leiga og húsnæðisverð almennt, geti farið hækkandi miðað við þá eftirspurn sem við þekkjum í dag. Ef við gerum ekkert annað en að auka ríkisstuðninginn þá er hætta á því að sá stuðningur birtist einmitt frekar (Forseti hringir.) í enn meiri hækkun á útleigu. Þannig að við þurfum sérstaklega að huga að framboðshliðinni og stærsta einstaka aðgerðin til að gera aðstæður skaplegri á húsnæðismarkaði væri aðgerð sem tryggði lægri vexti til lengri tíma.