145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

lokafjárlög 2014.

374. mál
[17:58]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að hafa tekið undir það með mér að við höfum kannski gengið of langt varðandi lánsveðin. Ég tek það þá svo að það sé afstaða hæstv. fjármálaráðherra að bankakerfið, sá partur þess sem við höfum einhver áhrif á og getum til dæmis ráðið með eigendastefnu, eigi að hafa hliðsjón af þessu. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það skipti allverulega miklu máli fyrir þennan part af samfélaginu, unga Íslendinga sem eru að koma út úr skóla, sem eru að stofna fjölskyldu, sem eru komin í vinnu, byrjuð að feta sig inn í samfélagið sem vinnuafl, að geta átt kost á þessum stað, þessum stuðningi, þessari liðveislu, til að geta klifið hinn fyrsta og oft langerfiðasta hjalla.

Fyrst við erum hér að reyna að tala um lausnir á þessum vanda, sem er húsnæðisglíman sem þessi partur kynslóðanna stígur, þá finnst mér að við eigum að taka höndum saman um að láta þetta verða annað og meira en orðin tóm hér í þessum ágætu sölum Alþingis, þá skulum við gera eitthvað í þessu, vegna þess að þetta skiptir máli.

Síðan vil ég líka, til þess að vera uppbyggilegur eins og hæstv. ráðherra, segja að vitaskuld er hægt, eins og mér fannst ráðherrann taka undir hér áðan, að hafa áhrif á framboðshliðina með stjórnvaldsaðgerðum. Það eru menn að gera í litlum sveitarfélögum úti á landi þar sem einkaframtakið og framkvæmdarvaldið í héraði taka höndum saman. Þetta er eitthvað sem ríkisvaldið þarf að gera og leita eftir samstöðu um gagnvart sveitarfélögunum.

Hæstv. ráðherra talar hér síðan um frumvörp hæstv. húsnæðis- og félagsmálaráðherra. Guð láti gott á vita. En við erum búin að bíða daufeyg og stundum hálfkjökrandi hér missirum saman eftir því að sú góða kona komi loksins með þær afurðir sem hún hefur verið að klekja út síðustu missiri.