145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

fasteignalán til neytenda.

383. mál
[18:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er spurt um greiðslumatið. Í 22. gr. frumvarpsins er fjallað um ákvörðun um lánveitingu. Þar segir að lánveitandi skuli vinna eftir skjalfestum innri reglum og hann skuli aðeins veita fasteignalán ef hann telur líklegt að neytandi geti staðið í skilum með lánið að teknu tilliti til niðurstöðu lánshæfis- og greiðslumats. Það er sem sagt í þeim tilvikum sem lántaki stenst ekki það greiðslumat sem þarna er verið að vísa til sem opnað er fyrir þann möguleika að hann fái engu að síður lán ef viðbótarathugun leiðir líkur að því að hann geti engu að síður staðið í skilum. Þá er tvennt sem þarf að koma til, annars vegar að varðveitt séu öll gögn um viðbótarathugunina, og það hvílir þá skylda á lánveitandanum að gera það, að halda utan um gögnin, og hins vegar að lántakinn sé upplýstur um að þetta sé staðan. Þarna er í raun og veru verið að fjalla um neytendaverndarsjónarmið sem þarf að hafa í huga þegar lánveitingar af þessu tagi eru annars vegar.

Ég sæi fyrir mér að lánveitandi sem hefði látið hjá líða að varðveita gögnin og gæti ekki sýnt fram á hvers vegna lán var veitt þrátt fyrir neikvæða niðurstöðu greiðslumats gæti orðið í vandræðum með að innheimta það lán samkvæmt skilmálum lánsins.

Hér var spurt varðandi veðsetningarhlutföllin hvort verið væri að horfa til fasteignalánanna einvörðungu eða að teknu tilliti til viðbótarlána. Hér er eingöngu verið að horfa á þau lán sem hér er fjallað um, þ.e. sjálft fasteignalánið. Ég vil vekja athygli á því að þessi veðsetningarhlutföll eru hugsuð sem þjóðhagsvarúðartæki, þ.e. ef þær (Forseti hringir.) aðstæður hafa skapast að bankar eru farnir að hækka veðhlutföll sín mjög og allir komnir upp í efstu mörk sem eru jafnvel í 90% þá kann að vera ástæða fyrir Fjármálaeftirlitið til þess að slá aðeins á útlánaþensluna. (Forseti hringir.) Þannig að þetta er þjóðhagsvarúðartæki og langt umfram það að vera einhvers konar neytendaverndarúrræði.