145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

fasteignalán til neytenda.

383. mál
[18:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við erum ekki alveg sammála varðandi möguleika okkar til þess að skapa hér markað fyrir fasta vexti á óverðtryggðum lánum. Það eru ýmis skilyrði sem þarf að uppfylla, m.a. þurfum við að ná betur utan um vinnumarkaðinn og það hvernig samið er um kaup og kjör þar og svo margt annað sem ég hef oft nefnt. Það er sannarlega ekki einfalt verkefni.

Varðandi uppgreiðsluna er tilgangurinn með þeirri breytingu sem hér er um að ræða að auka hvatana til þess að bjóða óverðtryggð lán. Eitt af því sem kemur í veg fyrir að lánveitendur séu tilbúnir til að gera það er þak á uppgreiðslugjaldi. Hérna er verið að breyta því þaki og miðað við þann árafjölda sem eftir stendur af láninu. Í skýringu við 36. gr. frumvarpsins eru miklir útreikningar sem sýna hvernig breytingin er á núvirði þessara lána eftir mismunandi vaxtalækkanir. Ég vonast til þess (Forseti hringir.) að sú tilraun sem er gerð til að skýra þetta með dæmum í frumvarpinu komist vel til skila vegna þess að þetta er nokkuð tæknilega snúið eða flókið mál til þess að fara yfir í stuttu máli, (Forseti hringir.) en þeim mun meira púðri var varið í að taka saman skýringar í greinargerð.