145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

384. mál
[18:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, og lögum um neytendalán, nr. 33/2013, með síðari breytingum. Svipað frumvarp var lagt fram á síðasta löggjafarþingi og varð ekki útrætt. Það er því nú lagt fram að nýju með nokkrum breytingum.

Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að veita gengistryggð lán með sömu skilyrðum og erlend lán. Þetta er málið sem ég var í raun og veru að vísa til í fyrri ræðu minni undir síðasta máli á dagskrá. Með þessu er komið til móts við sjónarmið Eftirlitsstofnunar EFTA, sem við nefnum ESA, sem fram koma í rökstuddu áliti hennar frá 22. maí 2013 þar sem stofnunin álítur að fortakslaust bann við gengistryggingu lána í íslenskum krónum sé ekki í samræmi við meginreglu EES-samningsins um frjálst fjármagnsflæði. Í framhaldinu féllust íslensk stjórnvöld á að endurskoða bann við gengistryggingu lána í íslenskum krónum. Til að gæta að samræmi við umgjörð erlendra lána er um leið lagt til að lánveitingum tengdum erlendum gjaldmiðlum verði sett takmörk, bæði frá sjónarhóli neytendaverndar og með tilgreinda almannahagsmuni að leiðarljósi. Þess ber að geta að engar eiginlegar skorður eru við veitingu slíkra lána eins og sakir standa.

Annars vegar eru í 7. og 8. gr. frumvarpsins lagðar til breytingar á lögum um neytendalán þar sem gert er ráð fyrir að lán tengd erlendum gjaldmiðlum, samkvæmt skilgreiningu í 6. gr. frumvarpsins til neytenda, sem ekki standast greiðslumat, verði óheimil. Þessum breytingum er ætlað að tryggja að neytandi hafi burði til þess að standa í skilum með lánið. Þannig er byggt á því að heimilt verði að veita lán tengt erlendum gjaldmiðlum til neytanda ef greiðslumat leiðir í ljós að hann hafi nægilegar tekjur í þeim gjaldmiðli sem lánið tengist til að standa undir greiðslubyrði vegna lánsins eða hann stenst greiðslumat þar sem gert er ráð fyrir verulegum gengisbreytingum og verulegum hækkunum á vöxtum eða stenst greiðslumat og leggur fram viðeigandi fjárhagslegar tryggingar sem eyða gjaldeyrisáhættu hans vegna lánsins á lánstímanum.

Þá er lagt til að óheimilt verði að veita neytendum lán sem miðuð eru við hlutabréfavísitölu, samanber 2. gr. frumvarpsins, enda er það jafnan ekki á færi neytenda að verja sig fyrir slíkri áhættu. Sú leið sem farin er í frumvarpi þessu byggir á því að ekki eigi að ganga lengra í að skerða heimildir neytenda til þess að taka lán tengd erlendum gjaldmiðlum en nauðsyn ber til.

Hins vegar er lagt til í 3. gr. frumvarpsins að Seðlabanka Íslands verði heimilt, í þágu fjármálastöðugleika og að undangenginni kynningu í fjármálastöðugleikaráði, að setja lánastofnunum reglur um hámark á útlánum tengdum erlendum gjaldmiðlum til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu. Jafnframt er gert ráð fyrir að Seðlabankinn geti sett reglur um viðhlítandi tryggingar og lengd lánstíma. Tilgangur slíkra reglna er að takmarka lántökur aðila, annarra en lánastofnana, sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu og koma í veg fyrir að slíkar lánveitingar skapi kerfislæga áhættu í fjármálakerfinu og ógni fjármálastöðugleika. Það er ekki gert ráð fyrir að ákvæðinu verði beitt nema nauðsyn krefji.

Verði frumvarpið að lögum er þess vænst að lánveitingar tengdar erlendum gjaldmiðlum verði innan skynsamlegra marka með tilliti til áhættu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.