145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

384. mál
[18:38]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég á eftir að fá nánari útskýringar á þessu í efnahags- og viðskiptanefnd, en mér sýnist þetta vera ljóslifandi dæmi um það hvernig gjaldmiðillinn virkar ekki. Við höfum ekki tæki til að standa vörð um hann. Menn segja að þetta megi ekki fara of hátt þannig að það er ekki bara verið að segja: Þú átt að hafa erlendar tekjur til að borga til baka í erlendum tekjum! — heldur geta líka falist þjóðhagsleg markmið í þessu.

Mér finnst kristallast í þessu máli að við ráðum ekki við þessa litlu, veiku, óstabílu krónu. Það er það sem við þurfum að takast á við til þess að fólkið í landinu búi við sömu lánakjör. Við erum að segja að þeir sem geti einhvern veginn sýnt fram á að þeir geti borgað erlend lán til baka eða hafi þær tryggingar á bak við sig að þeir geti borgað gengistryggð lán til baka eigi að geta fengið erlend lán sem eru kannski á 1,5% vöxtum eða eitthvað svoleiðis á meðan hitt fólkið í landinu á að borga 7% vexti. Þetta er hinn mesti ójöfnuður. Þetta er óréttlæti. Það þarf að fara að líta þessi mál þeim augum, virðulegi forseti.