145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

384. mál
[19:00]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil svara hv. þingmanni með því að sá sem hér stendur hefur verið einn af einörðum talsmönnum þeirrar stefnu að ekki beri bara að draga úr heldur afnema verðtryggingu á nýjum lánum og koma hvötum þannig fyrir að lántakendur og lánveitendur hafi hag af því að breyta eldri lánum yfir í óverðtryggð lán, ég hef fært mörg rök fyrir því.

Hvort þetta sé tækifærið til þess að grípa til svo róttækra aðgerða strax og í þessu samstarfi sem við erum í meiri hlutanum — ég held ekki. Ég held að ég muni vinna af heilindum að þessu máli og vinna það á faglegan og vandaðan hátt sem hér er verið að leggja til. Fjármálaráðherra hefur hins vegar getið þess að vinna sé í gangi í ráðuneytinu við að stíga þau skref sem lagt var til og ég held að samstaða sé um. Ég held að við munum bíða og sjá hvernig það gengur.

Sá sem hér stendur mun reyna að vanda sig sem allra best í því að þau mál sem hér er verið að leggja til, og þær breytingar sem hér er verið að leggja til, verði vel útfærð.