145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

384. mál
[19:04]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sé að hv. þingmaður hefur vikið af fundi á meðan við ræðum þetta mál og ég veit ekki hvert ég á að beina svarinu ef hann er farinn úr þingsalnum.

Ég þakka honum fyrir spurninguna og ég þakka honum fyrir þá umhyggju sem hann sýnir Framsóknarflokknum að gæta þess að við fylgjum kosningaloforðum okkar eftir; og við gerum það að sjálfsögðu. (Gripið fram í.) Já, við þökkum fyrir það. Það er gagnkvæmt. (HHj: Ég get flutt breytingartillöguna fyrir þig.) Já, þakka þér fyrir það. Þá veit ég hvernig atkvæði hv. spyrjanda mun falla í þeirri atkvæðagreiðslu. Hann styður það að verðtryggingin verði lögð af, og væntanlega strax og með hraði. Ég þakka fyrir þann stuðning í málinu. Gott að vita af því.

Ég get glatt hv. fyrirspyrjanda með því að Framsóknarflokkurinn hefur nú þegar staðið við tvö mjög mikilvæg kosningaloforð og það er ekki sá gállinn á okkur að hætta að standa við kosningaloforðin núna.

En það þarf að vanda sig við öll verk. Við vönduðum okkur við leiðréttinguna, við vönduðum okkur við þessar tillögur um afnám hafta og við ætlum líka að vanda okkur í því að afnema hér verðtryggingu.