145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

lækkun útvarpsgjalds.

[10:38]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég legg ekki fram frumvarp í ríkisstjórn nema í þeirri trú að það verði afgreitt út úr ríkisstjórninni. Annars mundi ráðherra ekki leggja fram þar frumvarp, en það liggur fyrir að það eru deildar meiningar um þetta mál, það þarf ekkert að koma á óvart, sem birtist í því að í núgildandi lögum er gert ráð fyrir öðru fyrirkomulagi en getið er um í þessu frumvarpi.

Það þarf ekki að koma á óvart að um þetta séu deildar meiningar, en hvað þýðir lækkun framlagsins? Það er hægt að sjá það með því að lesa þá skýrslu og þá úttekt sem Eyþórsnefndin svokallaða vann. Þar fá menn mjög glögga stöðu af rekstri Ríkisútvarpsins og þeim vandamálum sem þar er við að etja sem meðal annars eiga uppruna sinn í því sem ég nefndi áðan, miklu dýrara dreifikerfi en ætlað var, meiri launahækkunum en ætlað var, þyngri skuldabyrði.

Á undanförnum missirum hafa stjórn og stjórnendur Ríkisútvarpsins tekið mjög á í rekstri stofnunarinnar, (Forseti hringir.) m.a. með því að lækka rekstrarkostnaðinn, eins og ég nefndi, þannig að sá niðurskurður sem fyrir dyrum stæði kæmi að mínu mati mjög harkalega niður á því efni sem stofnunin framleiðir.