145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

afturvirkar hækkanir til aldraðra og öryrkja.

[10:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það má segja að forsætisráðherra sé formaður kjararáðs aldraðra og öryrkja því að það er ríkisstjórnin og Alþingi sem ákveða kjör þessara hópa.

Nú hafa alþingismenn og ráðherrar eins og fjölmargir aðrir hópar í landinu fengið úrskurðaðar kjarabætur afturvirkt frá vorinu síðasta. Því spyr ég forsætisráðherra hvort hann hyggist ekki tryggja öldruðum og öryrkjum afturvirkar launaleiðréttingar eins og við höfum fengið og eins og fjölmargir aðrir hópar hafa fengið í íslensku samfélagi.

Ef þessi ákvörðun hefur ekki þegar verið tekin í ríkisstjórninni þá vil ég spyrja forsætisráðherra hvort ekki sé unnið að því og hvort hann telji það ekki vera sjálfsagt réttlætismál að þessir fjölmennu hópar njóti ekki lakari launaleiðréttingar á yfirstandandi ári en aðrir hópar í samfélaginu, þar með talinn sá hópur sem situr í þessum sal.

Ég minni á að þetta hefur verið gert áður. Laun hækkuðu frá miðju ári við erfiðari efnahagsaðstæður en nú eru. Í dag er alþjóðadagur fatlaðra og það er viðeigandi að spurt sé um lífskjör fatlaðra á þeim degi og m.a. þá grundvallarspurningu hvort það sé ekki skylda okkar á þinginu og í ríkisstjórninni að tryggja þeim hópi jafnræði við aðra þegna í samfélaginu, hvort það sé ekki eitthvert mikilvægasta jafnræði fyrir þessa hópa að laun þeirra hækki frá sama tíma og aðrir. Eða væri það ekki dapurlegt ef við sem fengum myndarlega launaauka inn á reikninga okkar um síðastliðin mánaðamót mundum ekki tryggja þeim sem undir okkur heyra sambærilegar leiðréttingar um næstu mánaðamót? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)