145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

afturvirkar hækkanir til aldraðra og öryrkja.

[10:42]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem ég leit á sem megininnihald fyrirspurnar hv. þingmanns að það sé æskilegt að tryggja lífeyrisþegum, eldri borgurum og öryrkjum kjarabætur á við það sem okkur hefur tekist blessunarlega að tryggja öðrum hópum í þessu samfélagi á síðustu missirum þar sem kaupmáttur hefur aukist hraðar undanfarin missiri en líklega nokkurn tíma áður í sögu lýðveldisins.

Það er unnið að því núna m.a. með fjárlagafrumvarpinu sem enn er til vinnslu í þinginu að innleiða hröðustu kjarabót sem þessir hópar hafa séð að minnsta kosti um áratugaskeið á einu ári, gangi spár um verðbólgu eftir. Það er svo úrvinnsluatriði hvernig þetta dreifist á tíma en þegar við lítum á heildaráhrifin á síðustu missirum og til framtíðar má gera ráð fyrir því að kjör þessara hópa muni batna jafn mikið og kjör annarra hópa í samfélaginu.

Það er álitamál hvaða dagsetningar eigi að miða við og þá hvaða hækkanir til þess að ná þeim heildaráhrifum. En heildaráhrifin eiga að vera þau að þessir hópar muni, eins og aðrir hópar samfélagsins, njóta þess að hér er komin ríkisstjórn sem hefur tekist að bæta kjör allra, búa til forsendur til viðvarandi kjarabóta fyrir allan almenning í landinu. Hv. þingmaður, beri hann hag almennings raunverulega fyrir brjósti og þar með talinna þeirra hópa sem hann gerir að umtalsefni, hlýtur að fagna því að hér hafi tekist að búa til þær aðstæður að hægt sé að bæta kjör m.a. eldri borgara og öryrkja hraðar en önnur dæmi eru um í seinni tíma sögu landsins.