145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

afturvirkar hækkanir til aldraðra og öryrkja.

[10:45]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, þetta er ekki flókið en hann gerir þó sitt besta til þess að flækja það.

Það liggur fyrir að hækkanir, hvort sem er launa eða lífeyrisréttinda, taka mið af því frá hvaða tíma hækkanirnar gilda, þ.e. prósentuhækkunin tekur mið af því frá hvaða tíma hækkanirnar gilda. Séu hækkanir aftur í tímann þá leiðir það til þess að prósentuhækkunin verður lægri en ella og komi hækkanirnar til í framtíðinni verður prósentuhækkunin hærri en ella.

Þess vegna verðum við að líta á hver verður endanleg niðurstaða af kjarabótum eða hækkunum lífeyrisgreiðslna. Þess vegna hljótum við að fagna því að það sé að takast núna á Íslandi að bæta kjör, ekki hvað síst þeirra sem hafa haft lægstar tekjur, hraðar og meira en nokkurn tíma áður. Við skulum hafa það í huga, virðulegur forseti, að tekjubilið hefur aldrei verið jafn lítið á Íslandi og það er núna. Jöfnuður hefur aukist í tíð þessarar ríkisstjórnar. Vissulega þarf að gera enn betur fyrir þá sem eru með lægri tekjur, fyrir eldri borgara, fyrir öryrkja og aðra en árangur þessarar ríkisstjórnar sýnir að það er hægt (Forseti hringir.) að gera enn betur og við munum halda áfram á þeirri braut.