145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

upphæð veiðigjalds.

[10:55]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þetta voru vægast sagt hæpnir útreikningar sem hv. þingmaður kynnti hér. Þetta er það sem í tíð Reagans Bandaríkjaforseta var kölluð vúduhagfræði eða vúdútölfræði, að fá það út að sjávarútvegur á Íslandi skili 0 kr. vegna þess að við þurfum að reka ráðuneyti og gæta fiskimiðanna og landhelginnar og vera með Hafrannsóknastofnun til að stunda sjálfbærar veiðar.

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi spurninguna um veiðigjaldið og hvernig það er áætlað þá tekur það mið af þeim forsendum sem má gera ráð fyrir að verði á mörkuðum og hjá þessari grein almennt á komandi ári. Það er mjög erfitt að áætla slíkt af nokkurri nákvæmni en það er nú þannig með marga hluti að menn þurfa alltaf að gefa sér einhverjar forsendur og áætla út frá þeim. Sú áætlun gefur til kynna að eins og undanfarin ár muni íslenskur sjávarútvegur skila verulegu fjármagni beint í formi veiðigjalda til ríkisins.

En þar til viðbótar, og þessu virðist hv. þingmaður algjörlega gleyma, skilar sjávarútvegurinn milljörðum á milljarðatugi ofan með óbeinum hætti til samfélagsins í formi fjárfestingar, launa, alls lags umsvifa bæði sjávarútvegsfyrirtækjanna sjálfra og þeirra fyrirtækja sem á einn eða annan hátt tengjast sjávarútveginum og þau eru býsna mörg. Þar hefur verið mikill vöxtur og fjárfesting og sköpun nýrra hátæknistarfa á undanförnum árum. Þannig að sjávarútvegurinn á Íslandi skilar á margan hátt samfélaginu gríðarlegum verðmætum.

Það er ólíkt því sem aðrar þjóðir í Evrópu og raunar flestar þjóðir heims, allar þjóðir OECD svo við nefnum dæmi, búa við. Í öllum OECD-ríkjunum er sjávarútvegur ríkisstyrktur. Ríkið þarf að styðja við sjávarútveginn. Meira að segja í Noregi greiðir ríkið um 20 þús. íslenskar krónur eða sem því nemur með hverju lönduðu tonni (Forseti hringir.) meðan á Íslandi er rekinn sjálfbær sjávarútvegur í sátt við náttúruna sem skilar samfélaginu tekjum á ýmsan hátt.