145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjárhagsvandi Reykjanesbæjar.

[11:04]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er ekki viss um að hæstv. forsætisráðherra átti sig á hver raunveruleg staða er í Reykjanesbæ. Ég tel ástandið vera þannig að nauðsynlegt sé að ríkið komi strax að málum.

Ég vil rifja það upp að árið 2006 þegar herinn fór breyttist staða svæðisins. Rúmum tveimur árum seinna við efnahagshrunið greiddu íbúar Suðurnesja hærri toll en íbúar annarra svæða fyrir vikið og núna glíma þeir við að greiða úr óstjórn sjálfstæðismanna í bæjarstjórn undanfarin kjörtímabil og óábyrga lánveitingu kröfuhafa.

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann telji ekki tilefni til þegar bæjarfélagið glímir við slíkan vanda að hæstv. ríkisstjórn komi með skýrum og ákveðnum hætti að lausn vandans sem engan veginn er hægt að bera saman við vanda sem önnur sveitarfélög hafa þurft að glíma við á landinu.