145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007.

60. mál
[11:14]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta mál er ekki mikið að umfangi en þeim mun stærra að innihaldi. Samþykkt þessa frumvarps er mikilvægur áfangi í viðurkenningu á rétti barna sem mannréttindi voru brotin á fyrr á tíð. Nú skal með þessum lögum reynt að rétta þeirra hlut.

Ég tek fram að fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi standa að þessu máli, auk mín hv. þingmenn Elín Hirst, Helgi Hjörvar, Birgitta Jónsdóttir, Willum Þór Þórsson og Brynhildur Pétursdóttir. Það er ánægjuefni að allsherjarnefnd skilar undir verkstjórn hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur samhljóða áliti um málið. Það er fagnaðarefni að við skulum öll standa saman að þessu máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)