145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[11:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar, en undir álitið skrifa auk mín hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson, Ásmundur Einar Daðason, Haraldur Benediktsson, Páll Jóhann Pálsson og Valgerður Gunnarsdóttir.

Með þessu nefndaráliti eru jafnframt lagðar fram breytingartillögur sem finna má á þskj. 529, 530, 531, 532 og 533. Bið ég þingmenn um að kynna sér þær því að þar eru gerðar breytingartillögur að öllum þáttum frumvarpsins hvað varðar tekju- og útgjaldahlið auk breytingartillagna sem snúa að útgjaldaauka og svo 6. greinar heimildir.

Nefndin hefur haft frumvarpið til umfjöllunar frá 10. nóvember síðastliðnum og fengið á sinn fund fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins til að fara yfir helstu þætti þess. Einnig hefur nefndin leitað skýringa á einstökum gjaldatilefnum með því að fá fulltrúa velferðarráðuneytis, innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis á sinn fund.

Nefndin hefur sérstaklega kynnt sér þrjú mál í tengslum við frumvarpið, þau sem voru hvað mest til umræðu í þinginu við 1. umr. Í fyrsta lagi þróun útgjalda og fjárveitinga vegna hælismála í kjölfar flóttamannavandans í Evrópu. Innanríkisráðuneytið hefur farið yfir þau mál á nefndarfundi. Í öðru lagi var farið ítarlega yfir tillögu um heimild til þess að Ísland verði stofnaðili að Innviðafjárfestingabanka Asíu. Í þriðja lagi komu fulltrúar Vegagerðarinnar á fund nefndarinnar vegna tillagna um útgjaldaheimildir í frumvarpinu.

Samtals gerir meiri hlutinn breytingartillögur sem nema 5,3 milljörðum kr. til hækkunar tekna og 5,0 milljörðum kr. til hækkunar gjalda. Rekstrarafgangur eykst því lítillega frá því sem áætlað var í frumvarpinu eða um 0,3 milljarða kr.

Útlit er fyrir að afkoman á ríkissjóði verði nokkuð betri en áætlað var í fjárlögum ársins, sem er mikið gleðiefni. Samtals er nú reiknað með að tekjur ríkissjóðs verði 31,7 milljörðum kr. hærri en áætlað var en á móti vegur að útgjöldin hækka um 14,4 milljarða kr.

Í kjölfar birtingar Hagstofu Íslands á nýrri þjóðhagsspá 13. nóvember síðastliðinn hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið endurmetið tekjur ríkissjóðs og sér þess stað í breytingartillögum við frumvarpið. Allar breytingartillögur við tekjuhlið eru gerðar í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Tvær meginskýringar eru á því að tekjuáætlun fjárlaga er nú hækkuð um samtals 31,7 milljarða kr. Annars vegar hafa kjarasamningar, hátt atvinnustig og hagstæðar þjóðhagshorfur leitt til þess að nú er áætlað að skattar á tekjur og hagnað bæði einstaklinga og fyrirtækja leiði samtals til 15,1 milljarðs kr. hækkunar frá fjárlögum. Hins vegar er nú fyrirséð að arðgreiðslur í heild hækka um 10,2 milljarða kr. frá fjárlögum. Þar munar langmest um arðgreiðslur frá Landsbanka Íslands sem nema um 15 milljörðum kr. Á móti vegur lægri arðgreiðsla frá Seðlabanka Íslands.

Virðisaukaskattur og aðrir skattar á vöru og þjónustu eru taldir skila um 6,6 milljörðum kr. hærri tekjum en áætlað var í fjárlögum þrátt fyrir að framan af árinu hafi innheimtan verið undir áætlun fjárlaga og er hún því lækkuð í frumvarpinu. Aukin velta kom fram í innheimtu októbermánaðar og á þeim grundvelli eru áætlað að tekjur af virðisaukaskatti hækki um 6 milljarða kr. Aðrar breytingar á tekjuhlið eru ýmist til hækkunar eða lækkunar og mun minni en þau tilefni sem nefnd hafa verið.

Á gjaldahlið nema breytingartillögur meiri hlutans samtals 5 milljörðum kr. Stærsta einstaka breytingin er 3,5 milljarða kr. hækkun á liðnum Ófyrirséð útgjöld til að mæta áhrifum nýgenginna gerðardóma um kjör hjúkrunarfræðinga og félagsmanna BHM og kjarasamninga sem gerðir voru á seinni hluta ársins. Aðrar helstu breytingar eru í fyrsta lagi 835 millj. kr. hækkun til sjúkratrygginga í kjölfar endurmats á útgjöldum málaflokksins, þar af 470 millj. kr. vegna lyfjakostnaðar, 200 millj. kr. vegna tannlækninga og 165 millj. kr. vegna þjálfunar. Í öðru lagi hækkar framlag til Þjóðkirkjunnar um 370 millj. kr. og miðast hækkunin við að framlag ríkissjóðs verði reiknað samkvæmt upphaflegu kirkjujarðasamkomulagi og þar með að allar aðhaldskröfur sem gerðar hafa verið til Þjóðkirkjunnar frá og með árinu 2009 verði afturkallaðar árið 2015.

Inn í þennan samning var farið á síðasta kjörtímabili af fyrri ríkisstjórn og nú er það hlutverk þessarar ríkisstjórnar að efna þann samning sem gerður var við kirkjuna árið 1997. Forsendur tillögunnar eru þær að ríkið geri það að skilyrði að kirkjan skuldbindi sig til að hefja þegar samningaviðræður um endurskoðun kirkjusamkomulagsins sem fela í sér endurskoðun allra fjárhagslegra samskipta ríkis og kirkju, þar með talið hvað varðar sóknargjöld, jöfnunarsjóð sókna, framlög til kirkjumálasjóðs og Kristnisjóðs, með verulega einföldun þessara samskipta og hagræðingu að markmiði. Í þriðja lagi hækka vaxtagjöld um 421 millj. kr. í samræmi við endurmetna áætlun. Í fjórða lagi hækka framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga samkvæmt lögum um hlutfall af skatttekjum. Í fimmta lagi hækka framlög sem fjármögnuð eru með mörkuðum skatttekjum um samtals 288 millj. kr. Aðrar hækkanir vega minna. Á móti vegur að framlög til atvinnuleysisbóta lækka um 500 millj. kr. í samræmi við spár um minna atvinnuleysi og er það mjög gleðilegt að atvinnuleysi hefur farið minnkandi á árinu sem er að líða. Svo eru gerðar tillögur um að fjármagnstekjuskattur sem ríkissjóður greiðir lækki um 290 millj. kr. Eðli málsins samkvæmt eru þetta allt saman tillögur frá fjármálaráðuneytinu varðandi útreikning á þessum liðum.

Vakin er athygli á tillögum til hækkunar gjalda í frumvarpinu vegna málskostnaðar í opinberum málum, opinberri réttaraðstoð og bótum brotaþola sem samtals nema 837 millj. kr. eða 17% af gjaldahækkun frumvarpsins í heild. Tíðkast hefur að fella niður stöður þessara fjárlagaliða í lokafjárlögum og telur meiri hlutinn að það skýri að verulegu leyti ástæður þess að á undanförnum árum hefur ekki verið gripið til fullnægjandi aðgerða til þess að draga úr útgjaldaaukningu þessara fjárlagaliða sem verið hefur langt umfram verðlags- og launaþróun.

Um árabil hefur fjárlaganefnd ítrekað vakið athygli á afmörkuðu hlutverki fjáraukalaga sem samkvæmt lögum nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, skal takmarkast við óhjákvæmileg málefni, einkum ófyrirséð atvik, áhrif nýrra kjarasamninga eða nýrrar löggjafar á árinu, en ná ekki til áforma um ný verkefni, aukið umfang starfsemi eða til dæmis rekstrarhalla einstakra stofnana. Meiri hlutinn telur að misjafnlega hafi gengið að halda fast við þau áform þegar á hefur reynt og oftar en ekki hafi skort aga í ríkiskerfinu til að laga reksturinn að fjárheimildum með hagræðingaraðgerðum. Á árunum fyrir hrun var umfang gjaldahliðar fjáraukalaga oft á bilinu 5–8% af fjárlögum en það hefur að jafnaði farið lækkandi á síðustu árum. Nú í ár er það hlutfall 3,4%, sem er lægra en oft áður, en betur má ef duga skal. Ef ekki hefði reynst nauðsynlegt að bæta við fjárveitingu vegna endurmats á launaforsendum hefði hlutfallið verið 2,8%, en það hefur aðeins einu sinni verið lægra á síðastliðnum árum.

Í því sambandi vekur meiri hlutinn athygli á að nokkur dæmi eru um tillögur í frumvarpinu sem vafi leikur á að falli undir lagaákvæði um fjáraukalög. Má þar til dæmis nefna 60 millj. kr. viðbótarframlag vegna uppsafnaðs rekstrarvanda nokkurra tónlistarskóla, 45 millj. kr. til að greiða fyrir þjónustu norska fjarskiptafyrirtækisins Telenor og framlög vegna átaksverkefna, svo sem til að flýta málsmeðferð í hælismálum. Tvö veigamikil mál voru kynnt fjárlaganefnd í vor, strax eftir umfjöllun um þau í ríkisstjórn og telur meiri hlutinn það verklag til fyrirmyndar. Það var annars vegar 850 millj. kr. viðbót í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og hins vegar 1.300 millj. kr. til Vegagerðarinnar vegna brýnna vegaframkvæmda.

Meiri hlutinn vekur einnig athygli á því að við 2. umr. um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 var samþykkt að veita Ríkisútvarpinu 182 millj. kr. skilyrt viðbótarframlag til rekstrar. Fjárheimildin var háð þeim skilyrðum að fram færi vinna við fjárhagslega endurskipulagningu Ríkisútvarpsins og útborgun fjárins var enn fremur háð því að haldbærar rekstraráætlanir yrðu lagðar fram þar sem fram kæmi hvernig starfsemi stofnunarinnar yrði komið á réttan kjöl og hún gerð sjálfbær til frambúðar. Það fól í sér að rekstraráætlanir um starfsemina skyldu yfirfarnar af ráðherranefnd um ríkisfjármál. Meiri hlutinn hefur ekki fengið viðunandi svör vegna rekstrarins. Stjórn Ríkisútvarpsins hefur borið fyrir sig trúnaði vegna skuldabréfs sem skráð er á markaði, en meiri hlutinn telur að sú skoðun fái vart staðist. Jafnframt liggur fyrir að ráðherranefndin hefur ekki samþykkt rekstraráætlanir fyrir stofnunina. Engu að síður hefur meiri hlutinn fallist á að umrædd fjárveiting verði ekki dregin til baka þar sem fyrir liggur eindreginn vilji ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Á móti vegur að ekki er gert ráð fyrir að breytingartillaga um aukna innheimtu útvarpsgjaldsins á tekjuhlið renni sem útgjaldaheimild til Ríkisútvarpsins. Nemur sú fjárhæð um 50 millj. kr.

Í frumvarpinu felst tillaga um að heimila RÚV ohf. að ganga til samninga við Reykjavíkurborg um sölu á lóðarréttindum og verja andvirðinu til lækkunar skulda félagsins. Meiri hlutinn leggur áherslu á að tryggt verði að öllu söluandvirðinu verði varið til lækkunar skulda en komi ekki að neinu leyti sem rekstrarframlag til félagsins.

Í framhaldi af því er hér yfirlit yfir tillögurnar sem komu frá ríkisstjórninni á þeim grunni sem ég fór yfir í ræðu minni rétt áðan. Hér er líka að finna þær tillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur tekið tillit til og eru hér í þessum breytingum. Ég stikla aðeins á stóru um þau verkefni sem meiri hlutinn varð við og taldi að uppfylltu forsendur laga um fjáraukalög. Þarna er m.a. 30 millj. kr. fjárframlag til Háskólans á Akureyri. Við tókum ákvörðun um að setja 20 millj. kr. til Fangelsismálastofnunar ríkisins vegna mjög þungs rekstrarkostnaðar og niðurskurðar í tíð fyrri ríkisstjórnar og leggjum til að sá þungi rekstur verði að einhverju leyti bættur. Það er mikið ánægjuefni. Eins og ég sagði áðan eru lagðar til frekari tillögur frá minni hlutanum sem hægt er að lesa um í þessu nefndaráliti. Ég minni jafnframt á að hér liggja fyrir nokkuð margar breytingartillögur á einum fjórum þingskjölum sem koma til afgreiðslu við lok umræðunnar. Nú hefst 2. umr. um fjáraukalög fyrir árið 2015 og verð ég að sjálfsögðu til staðar í þingsalnum ef einhverjar spurningar vakna sem ég þarf að bregðast við.