145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[11:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikið hefði það nú verið ánægjulegt ef þingmenn Samfylkingarinnar hefðu haft þennan eldmóð til að bera á síðasta kjörtímabili og umhyggju fyrir eldri borgurum og öryrkjum eins og birtist hér árið 2015. Undir þeirra stjórn í ríkisstjórn var í fyrsta sinn farið í grunnbætur þessara hópa, virðulegi forseti, og þær skertar, í stað þess að gera smátilraun til þess að sækja fé til kröfuhafanna, eins og sú ríkisstjórn sem nú starfar hefur gert. Nei, þessum hópum var ekki hlíft á síðasta kjörtímabili, virðulegur forseti. En þess ber að geta að í þessum málaflokki eins og svo mörgum öðrum hefur ríkisstjórn sú sem nú starfar undir stjórn hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, farið fram og bætt þessa hópa og bætt þá skerðingu sem farið var í í tíð síðustu ríkisstjórnar, þannig að það sé sagt. Það er sannleikurinn, virðulegur forseti, og ég mun segja það eins oft og þurfa þykir.

Varðandi spurninguna frá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur þá þakka ég kærlega fyrir hana. Hún leitar eftir viðbrögðum frá mér sem formanni fjárlaganefndar. Hér liggur fyrir breytingartillaga í þinginu frá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur og fleirum, sem gengur út á það að farið verði með hækkun aftur í tímann upp á 5.904 millj. kr. til þess að bæta kjör þessara hópa. Svar mitt við því er, virðulegi forseti: Við skulum bara láta reyna á það í atkvæðagreiðslu hér í þinginu og sjá hvernig hún fer. En breytingartillagan er komin fram.