145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:10]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Fjárfestingaráætlun vinstri stjórnarinnar var tilefni þessarar ræðu hv. þingmanns. Ég skynja það á orðum hennar að hún þekkir ekki áætlunina og mun ég því færa henni upplýsingar um hana þegar ég hef lokið máli mínu hér.

Eins og ég fór yfir áðan sýna tölurnar í því frumvarpi sem við erum að ræða glögglega að fjárfestingaráætlunin var að fullu fjármögnuð. Ég vil lesa hér upp hvaða verkefni voru þar undir. Það var talað um að fara í samgöngumannvirki upp á 7,5 milljarða og styrkja Rannsóknarsjóð, Tæknisjóð og markáætlanir. Í sóknaráætlanir landshluta átti að setja 1.200 milljónir á hverju ári, 2013, 2014 og 2015. Þetta er byggðastefna sem sannarlega hefði skipt máli, (Gripið fram í.) en auðvitað sló hægri stjórnin þessa áætlun út af borðinu og er núna með örfáar milljónir í sóknaráætlanir landshluta sem allir voru ánægðir með og kölluðu eftir peningum í.

Hér er talað um ferðaþjónustuna. Uppbygging ferðamannastaða, herra forseti, kannast einhver við það? 1.500 millj. kr. Innviðir friðlýstra svæða, 750 millj. kr.

Svo er talað um skapandi greinar. Það er talað um græna hagkerfið og ýmsar fasteignir eins og fangelsið á Hólmsheiði, Herjólf, Menntavísindahús, Hús íslenskra fræða, Náttúruminjasafn, sýningu. Það er talað um Háskólann á Akureyri og að styrkja húsafriðunarsjóð og framlag til leiguíbúða.

Allt eru þetta þjóðþrifaverkefni og ef áætluninni hefði verið fylgt eftir (Forseti hringir.) eins og vinstri stjórnin gerði ráð fyrir væri staðan mun (Forseti hringir.) betri, bæði á höfuðborgarsvæðinu og eins víða um land. (Gripið fram í.)