145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er ástæða til þess að fara aðeins yfir sögu ríkisfjármálanna á Íslandi undanfarin ár. Það er auðvitað alltaf jafn merkileg upplifun að hlusta á hv. þm Vigdísi Hauksdóttur, formann fjárlaganefndar, ræða um þessi mál fullkomlega ótengd við veruleikann, eins og hv. þingmaður er þegar talið berst t.d. að glímunni við ríkisfjármálin á síðasta kjörtímabili.

Hv. þingmaður rifjar gjarnan upp að það hafi verið kosið á Íslandi í apríl 2013. Já, það er alveg hárrétt. Þess vegna eru að verða þrjú ár liðin. Samt er hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kolföst í fortíðinni. Samt er hennar aðalerindi hér í ræðustól (Gripið fram í.) stjórnarandstaðan, ríkisstjórn sem lét af störfum fyrir meira en tveimur og hálfu ári síðan.

Merkilegast er þó, herra forseti, að við Íslendingar skulum vera með ríkisfjármálin á Alþingi í höndum manneskju, og það má sumpart bæta varaformanni fjárlaganefndar við því að oft skilur nú lítið á milli, sem talar með þessum ævintýralega hætti um aðstæður í ríkisfjármálum eins og þær voru í lýðveldinu Íslandi eftir hrunið. Hv. þingmaður horfir alveg fram hjá því að árið 2008 var 217 milljarða króna halli á ríkissjóði Íslands á þágildandi verðlagi. Það var um 14% af vergri landsframleiðslu. Árið 2009 tókst með viðamiklum aðgerðum innan ársins, með því að taka upp fjárlög á miðju ári, að ná þeim halla niður í 140 milljarða, sem var rétt undir 10% af vergri landsframleiðslu, niður fyrir 90 milljarða 2010 o.s.frv. þangað til að jöfnuði var náð 2013.

Ef við lítum á þetta sem þróun án óreglulegra liða, eins og oft er gert, og vitnum hér í frumvarp til fjárlaga, fylgihefti þess, þá er þetta halli af stærðargráðunni 8% 2008 sem fer svo ört minnkandi í stórum skrefum og endar í afgangi 2013. Án óreglulegra liða skilaði ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri – grænna ríkissjóði með afgangi í lok kjörtímabilsins. Ég segi bara: Geri aðrir betur. Þekkja menn dæmi um það einhvers staðar í nálægum löndum að með svona rösklegum hætti hafi svona gríðarlega miklum halla verið eytt á einu kjörtímabili? Ég geri það ekki og ég spái því að á spjöldum sögunnar eigi þetta eftir að þykja mikið afrek.

Á þessu hefur hv. þm. Vigdís Hauksdóttir engan skilning. Hún nefnir aldrei að það hafi verið eitthvert viðfangsefni sem skipti máli fyrir Ísland, fyrir ríkissjóð, fyrir velferðarsamfélagið á Íslandi inn í framtíðina að það tókst, að vísu með gríðarlegum aðgerðum, að eyða þessum halla svona hratt sem leiddi til minni uppsöfnunar á halla og skuldum ríkissjóðs og þar af leiðandi lægri vaxtakostnaði en ella hefði orðið. Þetta tókst samhliða því að hagvöxtur hófst í landinu og efnahagskerfið fór að rétta úr kútnum, eins og það gerði strax á síðari hluta árs árið 2010.

Þetta er rétt að hafa í huga umræðunnar vegna, staðreyndanna vegna og þingtíðindanna vegna, því að það verður örugglega eftirspurn eftir því að ræða þessi mál á málefnalegri og uppbyggilegri hátt en hv. þm. Vigdís Hauksdóttir temur sér hér.

Hv. þingmaður talar hins vegar af miklum þjósti um blóðugan niðurskurð og telur nú ólíku saman að jafna þar sem sé manngæskan í núverandi ríkisstjórn. Hún er ótengd við veruleikann sem þarna var við að glíma, hversu afdrifaríkt og mikilvægt það var að það tókst að eyða þessum gríðarlega halla og það sem merkilegra er að það tókst á félagslega mjög meðvitaðan hátt þannig að rannsóknir og úttektir aðila eins og OECD, sérstakra sendifulltrúa mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna og fleiri slíkra, hrósa Íslandi fyrir það að hafa dreift byrðunum með sanngjörnum hætti, hlíft tekjulægri og veikari hópum og lagt byrðarnar á breiðari bökin. (VigH: Það er ekki rétt.) Sem er algerlega hárrétt og staðfest af svo mörgum óháðum sérfróðum aðilum, bæði innlendum og erlendum, að það er alveg sama hvernig hv. þm. Vigdís Hauksdóttir gjammar eitthvað annað, staðreyndirnar eru bara svona. Ég hvet menn til dæmis til að líta í skýrslu frá OECD, ég hvet menn til að lesa ágæta skýrslu sem óháður sérfræðingur, sendimaður mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, gerði eftir heimsókn sína til Íslands í lok síðasta árs. Þar lýkur hann lofsorði á það hvernig Íslandi tókst að glíma við þessa miklu erfiðleika í efnahags- og samfélagsmálum en ná eftir sem áður að gera eins vel og mögulegt var í því að tryggja félagsleg réttindi þegnanna með sanngjarnri dreifingu byrðanna.

Hv. þingmaður fer svo auðvitað rangt með, eins og hennar er vandi þegar hún fjallar um viðkvæm mál, þegar hún til að mynda fullyrðir að fyrri ríkisstjórn hafi með blóðugum niðurskurði hjólað í grunnfjárhæðir millifærslukerfanna. Það er rangt. Hið rétta er að það voru algjörlega varðar grunnfjárhæðir til dæmis atvinnuleysisbótanna sem höfðu nýlega verið hækkaðar myndarlega (Gripið fram í.) skömmu fyrir hrun og tryggingin, afkomutrygging þeirra í almannatryggingakerfinu sem engar aðrar tekjur höfðu var ekki skert. Hún var þvert á móti hækkuð í takt við verðlagsþróun öll árin. (Gripið fram í.) Þetta voru þær breytur sem mikilvægast var talið að verja; fjárhæðir atvinnuleysisbóta vegna stóraukins atvinnuleysis, og ekki veitti nú af, og sú trygging sem sett hafði verið inn í kerfið til að tryggja kjör þeirra sem engar tekjur hefðu aðrar en greiðslur úr almannatryggingakerfinu.

Þetta eru staðreyndir mála, herra forseti, sem hver sem er getur flett upp. Hið rétta er hins vegar að á árinu 2009 var færð til baka tekjutengd skerðing þeirra sem aðrar tekjur hafa. Hún var færð til baka aftur upp í þá 45 af hundraði sem hún hafði verið þar til 2007 þegar menn lækkuðu hana og það stóð aðeins í tvö ár. Þetta var fært til baka tímabundið og átti samkvæmt ákvörðuninni að falla úr gildi í árslok 2012, sem það og gerði.

Þannig var reynt eins og kostur var að standa vörð um hina tekjulægri og þá sem reiða sig og afkomu sína á greiðslur atvinnuleysisbóta eða tekjur úr almannatryggingakerfinu og sérstaklega þá sem lakast eru þar settir í þeim skilningi að þeir hafa engar aðrar tekjur. Þeirra hagsmunum var ekki raskað. 2011 voru gerðir kjarasamningar með umtalsverðar sérstakar hækkanir lægstu launa. Þeir samningar urðu alldýrir bæði ríki og sveitarfélögum, eins og kunnugt er, og áttu sinn þátt í að verðbólga komst aftur á svolitla hreyfingu í missiri þar á eftir. Engu að síður ákvað þáverandi ríkisstjórn að hækka bætur elli- og örorkulífeyris um nákvæmlega sömu fjárhæðir og lægstu laun hækkuðu um og greiða þá hækkun afturvirkt til upphafstíma kjarasamninganna. Það var gert vorið 2011.

Vissulega voru áform í fjárlögum ársins 2012 ekki alveg jafn ríkuleg í þeim skilningi að þá var tekin meðalhækkun launa og gengið út frá henni við afgreiðslu næstu fjárlaga. En það var skilað strax til þessa hóps sömu kjarabótum og náðust í láglaunasamningunum 2011. Það á ekki að gera núna, eins og ég kem kannski aðeins betur að í lokin. Þar er núverandi ríkisstjórn á öðrum nótum en hælir sér samt með þessum hætti af því að búa yfir alveg sérstakri manngæsku og örlæti og gagnrýnir aðra sem hún hefur nú ekki efni á, a.m.k. ekki í þessum samanburði séð.

Það er auðvitað alveg ótrúlegt hneyksli, best að klára það strax á meðan nokkrar mínútur eru eftir, ef ríkisstjórnin ætlar að ljúka árinu þannig að eiginlega eini hópurinn í þessu landi sem verður skilinn eftir án nokkurra kjarabóta á árinu 2015 verði aldraðir og öryrkjar, kannski að meðtöldum námsmönnum. En það er það sem stefnir í, nema breytingartillaga minni hlutans verði samþykkt.

Nú síðast eftir að kjaradómur hefur fellt úrskurð um að úrskurða okkur hér í þessum sal, forsetanum, ráðherrum, alþingismönnum, æðstu embættismönnum og dómurum, hækkun sem verður afturvirk til 1. mars að ég held, þá á ég erfitt með að skilja hvernig menn ætla að harka það af sér að gera ekki nokkurn skapaðan hlut innan þessa árs fyrir þennan hóp. Eftir stæði þá deilan um það hvort þeir ættu á næsta ári að fá hækkun á greiðslum sínum í samræmi við hækkun lægstu launa eða meðallaunaþróun, hvort það eigi að vera 9,4 eða 9,7% eða hvað það nú er eða kannski 14%. Sú deila væri þá eftir. En að ætla sér að halda henni til streitu, væntanlega, og gera ekkert á þessu ári er alveg ótrúleg frammistaða af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og stuðningsmanna hennar. Ég held að það verði leitun að því í sögunni að svo harkalega sé þessi hópur skilinn eftir af einni ríkisstjórn, væri svo sem ekki nýtt.

Varðandi nokkur önnur atriði sem gaman væri að spjalla um í þessu samhengi má staldra við í fyrsta lagi arðgreiðslur frá fjármálafyrirtækjum og minni hlutinn rekur það vel í nefndaráliti sínu og sýnir með töflum hvernig ríkisstjórnin hefur staðið þar að málum. Það er alveg með ólíkindum að menn skuli ár eftir ár vanáætla þetta stórkostlega og horfa fram hjá því. Kannski eru þar á ferðinni erfiðleikar stjórnarflokkanna við að reyna að halda á þeim málstað sínum að fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar hafi ekki verið fjármögnuð með því að reyna að halda því alltaf fram við afgreiðslu fjárlaga að það muni enginn arður koma frá fjármálastofnunum.

Hvaða ástæða ætti að vera til þess önnur? Er það vegna þess að meiri hlutinn, agameistararnir hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, hafi svona gaman að því að koma árlega með stórkostleg frávik og þurfa að færa þau inn í fjáraukalög, vanáætlun sem allir sáu og vissu af? En það hefur þessi ríkisstjórn valið sér að gera í nokkrum tilvikum ár eftir ár. Hún hefur sett þarna hverfandi fjárhæðir inn í áætlaðar arðgreiðslur þegar allir hafa vitað betur. Til dæmis núna liggur alveg ljóst fyrir hver arðgreiðslugeta Landsbankans á næsta ári verður þegar afkoma hans á fyrstu þremur ársfjórðungunum liggur fyrir og er gríðarlegur hagnaður, sem þýðir að bankinn er í mjög svipuðum færum til að borga arð af stærðargráðunni 20–30 milljarðar á næsta ári. Og mun væntanlega gera það. Eigið fé bankans er komið vel upp fyrir öll viðmiðunarmörk, fallhlutfallið komið á þriðja tug prósenta þannig að jafnvel þótt Basel III reglurnar væru innleiddar að fullu með öllum eiginfjárviðaukum þá mundi Landsbankinn standast þær vel.

Að sjálfsögðu er við þær aðstæður engin ástæða fyrir bankana önnur en að greiða út arð. Það er eðlilegast vegna þess að það að hlaða eigin fénu upp umfram það sem fyrir er inni í bankanum þýðir einfaldlega að mjög erfitt er að sækja ávöxtun á það fé. Það er erfitt að ná arðsemi í rekstur bankans sem er orðinn svo gríðarlega sterkt fjármagnaður. Þá er að sjálfsgöðu eðlilegra að hann skili einhverju af hagnaðinum sem arði til eiganda síns, sem er blessunarlega í þessu tilfelli íslenska þjóðin, sem þarf hann. (Gripið fram í.)

Staðreyndirnar eru þær að fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar fyrir árin 2013–2015 hefur reynst að fullu fjármögnuð jafnvel þótt ríkisstjórnin hafi af miklu örlæti og rausnarskap — því að þar á hann við, þar á hann heima, rausnarskapurinn og örlætið — lækkað gjöld á stórútgerðina. Þar hefur ríkisstjórnin lækkað veiðigjöld á milli þriggja fiskveiðiára úr um það bil 13 milljörðum niður í 7,7 á síðasta heila fiskveiðiári, þannig að þar eru farnar út tekjur upp á eina 5–5,5 milljarða.

En arðgreiðslurnar frá fjármálastofnunum hafa reynst svo miklar að jafnvel þótt ekki hafi komið til sölu á einum einasta eignarhlut þá hefði fjárfestingaráætlunin verið fullfjármögnuð með því.

Þá kemur að næsta þætti sem mig langar að gera að umræðuefni sem eru vegamálin. Fjárfestingaráætlunin gerði ráð fyrir umtalsverðu átaki í samgöngumálum á þessum árum, 2013, 2014 og 2015. Það hefði komið sér ákaflega vel, samanber bágborið ástand ekki síst vegakerfisins, ef þær framkvæmdir hefðu farið fram í staðinn fyrir að núverandi ríkisstjórn hefur svelt málaflokkinn og staðið sig með alveg eindæmum illa þannig að það er leitun að jafn snautlegri frammistöðu hjá einni ríkisstjórn. Hún hefur engri einustu samgönguáætlun komið í gegn. Hún hefur gripið til einhverra skítareddinga í málaflokknum að hluta til í fjáraukalögum. Alveg eins og hún hefur farið með Framkvæmdasjóð ferðamála.

Að loka fjárlögunum tvö ár í röð með algerlega óraunhæfum tölum þar og verða svo að hrökklast til þess að setja inn mikla peninga í fjáraukalög og koma til þingsins með það eru vinnubrögð sem ég hélt að menn væru að reyna að leggja af, að vanáætla fyrir fram klárlega annaðhvort tekjur, eins og í tilviki arðgreiðslnanna, eða fyrirsjáanleg óumflýjanleg útgjöld, eins og í tilviki Framkvæmdasjóðs ferðamála eða vegamálanna þess vegna, og koma svo skríðandi með það inn í fjáraukalög. Ég hélt að það væru einmitt vinnubrögð sem menn ætluðu að leggja af en núverandi ríkisstjórn hefur tekið þau upp af miklum móð og er nú ekki til eftirbreytni.

Ef menn hefðu fjárfest í innviðum samgangna, og auðvitað víðar í innviðum samfélagsins, af þrótti þessi ár í nýsköpun og þróun og rannsóknum, með þeim þrótti sem upphafleg fjárfestingaráætlun gerði ráð fyrir, ríkisstjórnin hefur að vísu komið inn aftur að hluta til með fjárveitingar í þann málaflokk, séð að sér má segja, þá hefði verið mun meiri skriður á þessum verkefnum undangengin tvö ár og á þessu ári. Þá hefði verið til dæmis í tilviki samgöngumálanna frekar ásættanlegt að halda sjó með framkvæmdir nú þegar farið er að hitna undir í hagkerfinu. En við erum búin að glata dýrmætum tíma sem hefði verið þjóðhagslega mjög hagstæður til þess að fjárfesta í þessum innviðum. Það má færa fyrir því viss rök að núna sé ekki að öllu leyti í hagstjórnarlegu tilliti kjöraðstæður til þess að stórauka fjárfestingar af þessu tagi. Maður verður að vera heiðarlegur með það, viðurkenna það.

Þeim mun grátlegra er að við skulum hafa glatað jafn miklum tíma og raun ber vitni út af meinbægni þessarar ríkisstjórnar. Hún hefur reynst henni einhver mesti akkillesarhæll, hún er svo krumpuð á sálarlífinu gagnvart fyrri ríkisstjórn að það varð að sérstöku markmiði að reyna að breyta frá öllu sem hún hafði gert, jafnvel þó að það væri mjög skynsamlegt, eins og það yfirleitt var, jafnvel þó að það nyti mikils stuðnings, eins og t.d. sóknaráætlanir landshlutanna, jafnvel þó að allir viðurkenni þörfina, eins og fjárfestingar í samgöngukerfinu og innviðunum. Nei, þá skyldi hætt við það af því að fyrri ríkisstjórn hafði ákveðið það.

Þetta eru krumpur á sálarlífi lítilla karla og kvenna í stjórnmálum, (Gripið fram í.)sem eru ekki efnisrök. Þetta eru einhver ódýrustu og ömurlegustu rök sem til eru. Bara af því að fyrri ríkisstjórn ákvað þessa hluti þá getur ekki verið rétt að halda áfram með þá, hversu borðleggjandi sem það að öllu öðru leyti er og skynsamlegt, þjóðhagslega vegna verkefnanna sem í hlut eiga o.s.frv. Öllu minni verða menn nú ekki í pólitík þegar þeir hafa engin önnur rök en svona löguð.

Stóra myndin er sú að að ýmsu leyti er okkur áfram að vegna vel. Ísland er jafnt og þétt heldur að styrkjast hvað varðar efnahagslega endurreisn eftir hrunið. Sú þróun hefur haldið áfram óslitin og samfelld frá síðari hluta árs 2010. Hagvöxtur verið ágætur, atvinnuleysi farið minnkandi og afkoma ríkisfjármála gjörbreyst til hins betra. Hún er að vísu því miður ekki að batna nóg horft fram á veginn.

Við þær þensluaðstæður sem núna eru uppi og verða væntanlega næstu missirin hefði verið skynsamlegt að hafa mun meiri afgang af ríkissjóði og greiða hraðar niður skuldir eða leggja í sjóð til erfiðari ára sem auðvitað ber fyrr eða síðar að garði, eins og þau því miður gera alltaf hjá okkur. Hagstjórnin er ekki skilvirk við þessar aðstæður. Seðlabankinn er kominn í þá erfiðu stöðu að reyna að viðhalda stöðugleika þó að ríkisstjórnin vinni gegn honum og það fer um mann ónotahrollur þegar maður rifjar upp þá tíma þegar akkúrat þetta var hluti af ógæfu landsins, að hagstjórnin var ekki samræmd (Forseti hringir.) og skilvirk og menn unnu ekki saman, einn reri í austur og annar í vestur.