145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé algerlega óumflýjanlegt og þjóðhagslega gríðarlega mikilvægt að gera betur í þeim efnum og það eru mikil vonbrigði eins og ég segi að við höfum glatað dýrmætum tíma á því sviði eftir að hagur ríkissjóðs fór að vænkast, einfaldlega vegna þess að það mun valda svo gríðarlegu tjóni inn í framtíðina að gera það ekki.

Sennilega má færa sterk rök fyrir því að sá einstaki liður sem ætti að njóta mests forgangs væri viðhald. Það verður einfaldlega að stórefla aftur viðhald á vegakerfinu því að það er komið niður fyrir þau mörk að viðhalda því. Vegakerfið er farið að skemmast sem leiðir til mjög dýrra úrbóta síðar meir.

Hvað gerist ef menn vanrækja árum saman og allt of lengi eðlilegt viðhald innviða af þessu tagi? Það er reikningur sendur framtíðinni, því að þörfin hverfur ekki, og hana mun þurfa að takast á við en það verður bara gert síðar. Því er verið að henda þarna reikningi inn í framtíðina. Þetta er óábyrgt. Við erum að lifa á kostnað framtíðarinnar að þessu leyti með því að láta samgöngukerfið, innviðina, drabbast niður úr öllu hófi.

Annað sem ég hef auðvitað verið mjög ósáttur við og vil nefna af því að hv. þingmaður er vel að sér um þá hluti er þessi skuldafærsla Vegagerðarinnar, að skuldfæra hjá Vegagerðinni sem einhverja ægilega skuld við ríkissjóð eða bullandi neikvætt eigið fé Vegagerðarinnar framlög til vegamála umfram markaða tekjustofna á löngu umliðnu árabili. Hvenær var sú ákvörðun tekin að þetta væri svona? Ég kannast ekki við það.

Ég spyr hv. þingmann: Kannast hún við það sem fjármálaráðherra að hafa samþykkt að það væri sett svona upp? Ég held því fram þvert á móti að það hafi aldrei verið skilningur manna framan af að þó að ríkið (Forseti hringir.) tæki ákvörðun um að auka eigi í samgönguframkvæmdir með beinum fjárlögum úr ríkissjóði umfram markaðar tekjur, að þar með væri það orðið að skuld Vegagerðarinnar. Það er seinni tíma uppfinning einhverra bókhaldsmanna sem stjórnmálamennirnir skýla sér því miður núna á bak við.