145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:37]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Neikvætt eigið fé Vegagerðarinnar hefur verið til umræðu í hv. fjárlaganefnd og Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemdir við þetta. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að það er mjög einkennilegt að þetta sé fært svona til bókar þegar ákveðið er að leggja aukið fé í vegagerð. Þá er bara verið að segja að ef mörkuðu tekjurnar standa ekki undir Vegagerðinni þá muni umframfjármunirnir verða settir sem skuld á stofnunina. Það þarf að breyta þessu.

Hv. þingmaður ræddi um veiðigjöldin og hafa tölur sýnt að arður útgerðarinnar er mjög hár og arðurinn sem eigendur greiða til sín er á annan tug milljarða króna, sem þeir greiða bara til sín, á meðan þjóðin fær varla helminginn af því til sín fyrir veiðileyfið sem þjóðin gefur útgerðinni. Vinstri stjórnin gerði ráð fyrir mun hærri veiðigjöldum og menn hafa tekist á um það hvort það hafi verið rétt eða ekki og minni útgerðir hefðu kannski liðið fyrir það. Við vorum líka komin með breytingar í þá vegu að koma til móts við minni útgerðir.

En hvað getur hv. þingmaður sagt mér um þessa hagstjórn, að safna bara peningunum hjá útgerðinni í þessari gósentíð? Telur hv. þingmaður að brauðmolarnir muni hrynja niður til okkar hinna frá þeim og hvernig mun það birtast?

Ég vil líka spyrja um arðinn af bönkunum, hvort það sé ekki bara (Forseti hringir.) svona trix hjá ríkisstjórninni til að þurfa ekki að styrkja velferðarkerfið eða vegakerfið eða innviði samfélagsins í takt við tekjuafgang.