145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[13:30]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum dagskrárlið, umræðu um fjáraukalög fyrir árið 2015, aðallega til þess að tala um breytingartillögu á þskj. 564 frá minni hlutanum um auknar fjárheimildir til handa öryrkjum og eldri borgurum til að þeir fái borgaðar launaleiðréttingar afturvirkt eins og allir aðrir í samfélaginu. Mér finnst þetta sjálfsögð krafa sem hefur komið fram hjá öryrkjum og eldri borgurum. Ég fór yfir það í ræðu minni í síðustu viku þegar ég fór á opinn fund hjá Öryrkjabandalaginu á Grand Hóteli fyrir rúmri viku, 21. nóvember, þar sem þessi mál voru til umræðu. Öllum þingmönnum var boðið þangað en við mættum þrír. Það hefði verið bragur að því að fleiri þingmenn hefðu komið þangað og hlustað á kröfur öryrkja og þær reynslusögur sem þar voru sagðar. Ég veit að við Íslendingar erum yfir höfuð gott fólk og það á alveg eins við um þá sem eru í stjórn og í stjórnarmeirihluta. Þetta er allt saman afskaplega gott fólk þótt við höfum kannski vissar meiningar um það hvernig á að stunda stjórnmál og annað. Það er allt annað.

Mig langar, með leyfi forseta, að lesa upp ályktun þessa opna fundar sem hafði yfirskriftina Mannsæmandi lífskjör fyrir alla:

„Ágæti þingmaður. Viltu skapa samfélaga fyrir alla þar sem lífeyrisþegar og börn þeirra hafa tækifæri til virkrar samfélagsþátttöku en ekki að þeim séu settar þær kjaraskorður sem þeir búa við nú? Þú hefur valdið til að breyta.

Opinn fundur Öryrkjabandalagsins, Mannsæmandi lífskjör fyrir alla, sem haldinn er á Grand Hóteli laugardaginn 21. nóvember 2015, skorar á þingmenn að hafa áhrif á fjárlagagerð ríkisins fyrir árið 2016 með eftirfarandi hætti:

Lífeyrir almannatrygginga hækki afturvirkt um sömu krónutölu og lægstu laun hækkuðu 1. maí sl., sem er 31 þús. kr. fyrir skatt.

Lífeyrir almannatrygginga hækki um 15 þús. kr. frá 1. maí 2016, samhliða lækkun lágmarkslauna.

Einnig er farið fram á að króna á móti krónu skerðing sérstakrar framleiðsluuppbótar verði afnumin hið fyrsta.“

Og að lokum segir: „Þingmenn, gerið okkur kleift að vera með mannsæmandi framfærslu.“

Breytingartillagan miðast að því að koma til móts við þessa ályktun.

Ég hef oft velt því fyrir mér hér á þingi og í ræðum hvers konar samfélag við viljum byggja á Íslandi. Það hefur komið fram í ræðum hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra og nánast allra stjórnarþingmanna að það sé alveg blússandi uppgangur í samfélaginu. Það má taka undir það. Það verður að segjast alveg eins og er að Ísland stendur gríðarlega vel miðað við margar aðrar þjóðir. Ég vil ekki meina að það sé endilega þessari ríkisstjórn að þakka þó að hún eigi allt gott skilið fyrir það sem hún hefur gert í þessa áttina heldur eru þetta samverkandi þættir frá síðasta kjörtímabili. Ríkisstjórnin þá tók við afskaplega löskuðu búi eins og allir vita þar sem var fleiri hundruð milljarða kr. halli á ríkissjóði sem ríkisstjórninni tókst þó að vinna niður. Hún skilaði nánast hallalausum búskap þegar hún hraktist frá völdum og við tók ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Ég velti því líka fyrir mér hvers konar samfélagi við viljum búa í. Viljum við samfélag þar sem við höldum utan um fólk sem á erfitt og þarf aðstoð til þess að lifa eða samfélag sem ýtir því bara frá og segir: Nei, þetta er nóg fyrir ykkur, þið verðið að sætta ykkur við að lifa af þessu? Ég er einn af talsmönnum barna á Alþingi, ég fékk það virðingarheiti fyrir rúmu ári síðan og er mjög stoltur af því og hef svolítið einbeitt mér að því að skoða þann málaflokk og aðra sem snerta börn og þá sem lakast standa. Við stöndum mjög vel miðað við margar aðrar þjóðir. Mörg börn annars staðar hafa það miklu verr, líka í löndum nálægt okkur. Þó er það samt staðreynd að fyrir nokkrum árum kom út skýrsla þar sem sagði að yfir 12 þús. börn lifðu við fátæktarmörk á Íslandi. Það er ótrúlega há tala. Kannski er þetta ekki sjáanlegt því við erum stolt þjóð og viljum ekki láta á því bera. Við búum líka við það að fatlaðir og öryrkjar hafa búið við ótrúlega útskúfun og mismunun í samfélaginu áratugum saman. Það er alltaf að koma betur og betur upp á yfirborðið ýmislegt sem verið er að grafast fyrir um, mjög ógeðfelldar frásagnir af því hvernig við höfum komið fram við þetta fólk og gerum í raun enn þá.

Ég þáði í gær boð frá Sjálfsbjörg ásamt sendiráði Bandaríkjanna að sjá heimildarmyndina Líf vert þess að lifa eða Lives Worth Living sem sýnir réttindabaráttu fatlaðra í Bandaríkjunum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Það var mjög áhrifarík mynd. Ég fór að velta því fyrir mér að þó að margt hefði áunnist hér á síðustu áratugum þá ættum við enn mjög langt í land með að uppfylla þau mannréttindaskilyrði sem við höfum undirgengist með mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, svo og stjórnarskrárvarinn rétt fólks til að lifa mannsæmandi lífi. Við eigum töluvert mikið langt í land með það. Þrátt fyrir að ég styðji ríkisstjórnina til allra góðra verka þá finnst mér að það eigi að vera algert forgangsmál í okkar samfélagi að hlúa að stoðum samfélagsins og þessum hópum samfélagsins og miða allt sem við gerum við það að það henti börnum, komi sér best fyrir börn og þá sem eiga í erfiðleikum með að lifa lífinu til jafns við okkur hin og þurfa aðstoð við það, ekki síst eldri borgara þessa lands, fólkið sem byggði upp landið. Fólkið sem nú er að fara á ellilífeyri er fólkið sem kom okkur upp úr gríðarlegum öldudal, barðist fyrir okkur og vann myrkranna á milli við að byggja upp það samfélag sem við búum í í dag, þetta góða samfélag, vil ég segja. Við búum í mjög góðu samfélagi.

En þetta er bara mín skoðun. Menn geta haft allar skoðanir á þessu sem þeir vilja en þetta er mín skoðun. Svona samfélag eigum við að byggja. Menn hafa talað um það í ræðustól, bæði í óundirbúnum fyrirspurnum, í ræðum og annað, að hér gangi allt gríðarlega vel. Atvinnulífið hefur tekið vel við sér. Það þarf ekki að nefna sjávarútveginn og hversu gríðarlegt hagvaxtarskeið hefur verið í sjávarútvegi síðan allt hrundi hér með miklum skelli fyrir nokkrum árum. Það bitnaði allt á almenningi í landinu. Stórútgerðin og þeir sem eru í útflutningsgreinum hafa aldrei haft það betra en einmitt þá. Það var örugglega í ljósi þess sem sett voru á veiðigjöld á sínum tíma, til að þjóðin fengi sanngjarna rentu af auðlind sinni.

Ef það er eitthvað sem við erum léleg í er það að innheimta gjöld fyrir auðlindir okkar. Við sjáum hvernig álfyrirtækin hafa verið að flytja út í skjóli ýmissa laga arðinn af raforkuauðlind okkar. Við framleiðum yfir 18 þús. gígavattsstundir af rafmagni og það fara um 4 þús. af þeim í íslensk fyrirtæki og íslenskan almenning. Hitt fer allt í stóriðju. Hvað fáum við fyrir það? Svo fyrir utan allt annað og auðlindirnar sem við fáum lítið af, eru skattsvik hér á Íslandi talin nema um 80 milljörðum. Hvað erum við að gera í því? Reynum við að ná því til baka? Reynum við að laga það? Ég las frétt um það í haust að Íslendingar ættu á bankareikningum í Tortóla 35 milljarða, allt saman fé sem hefur verið stolið frá almenningi á Íslandi. Skotið undan skatti. Hvers konar samfélag er það sem lætur svona viðgangast? Af hverju einhendum við okkur ekki í það að laga þetta? Af hverju erum við að rífast um það dögum saman hvort leggja eigi niður Þróunarsamvinnustofnun, stofnun sem er rekin gríðarlega vel og er ein af stofnunum ríkisins sem hægt er að vera stoltur af? Við eyðum dögum í það í stað þess að vinna í því hvernig við getum bætt íslenskt samfélag, náð í meiri peninga til að reka samfélagið og sameiginlega sjóði, efla samfélagskennd Íslendinga. Hún er ekki á háu stigi, því miður, ég ætla að leyfa mér að segja það, virðulegi forseti. Samfélagskennd okkar mætti vera á hærra stigi og hvernig við viljum skipta fjármunum sem við öflum og eigum saman. Við eigum þetta allt saman saman. Eða alla vega stendur það á blaði að auðlindirnar séu eign okkar. Þá er ekki nema sjálfsagt að við fáum arðinn af þeim, fáum sanngjarna rentu til að hægt sé að reka gott samfélag þar sem enginn líður skort. Við erum 330 þús. manneskjur. Það er eiginlega skammarlegt hvernig við komum fram við þetta fólk og látum það lifa nánast við hungurmörk.

Ég hlustaði á eitt erindi á þessum fundi þar sem ung móðir átti 44 þús. kr. til að lifa af mánuðinn. Hún gat ekki einu sinni haft börnin sín hjá sér. Hún varð að fá að hitta þau einu sinni til tvisvar í mánuði, hún hafði ekki efni á að hitta börnin sín oftar eða vera með þeim. Þetta á náttúrulega ekki að líðast á landi eins og Íslandi. Það er bara sárgrætilegt að þetta skuli vera svona. Ég vildi óska þess að fleiri þingmenn hefðu verið á þessum fundi og fengið að upplifa á eigin skinni að hlusta á þetta fólk því þetta var mjög sláandi og áhrifaríkt og maður var hálfklökkur á eftir. Á sama tíma og kjararáð er að láta okkur fá væna greiðslu afturvirkt er ekki hægt að gera það fyrir þetta fólk. Það er ekki mikill bragur að því, finnst mér. Maður er með hálfgerð ónot yfir því að við skulum ekki geta fundið fjármagn á sama tíma og fram kemur að tekjuafgangur ríkissjóðs er milli 20 og 30 þús. millj. kr. Á næsta ári, ef allt gengur upp í sambandi við stöðugleikaframlag, verður jafnvel hægt að borga niður skuldir ríkisins og minnka vaxtagreiðslur um fleiri tugi milljarða. Samt sjáum við ekki ástæðu til að koma til móts við kröfur þessa fólks.

Ég fór í óundirbúna fyrirspurn við forsætisráðherra í síðustu viku þar sem ég spurði hann út í þetta. Hann sagði meðal annars í seinna svari sínu að hann vonaðist til að það mundi myndast rík samstaða á milli stjórnarandstöðu og stjórnarmeirihluta við gerð fjárlaga og fjárauka um að finna lausn á þessu máli. Ég vil túlka það svoleiðis, forseti, að með því svari hafi hann verið að hvetja okkur til að finna lausn á þessu, við leysum það svo að sómi sé að og við getum labbað brosandi í jólafríið. Því ég verð að segja eins og er, það verður erfitt nema við komum til móts við þessa hópa.

Eins og ég sagði áðan er þetta gríðarlega gott samfélag sem við búum í. Ríkt samfélag. Auðlindir okkar eru ekki bara sjórinn og orkan heldur líka friðurinn sem við búum við. Við sem erum þjóðkjörnir fulltrúar verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að verja almannaheill og verja þennan frið og sjá til þess að allir geti lifað í sátt og samlyndi. Það er ekki þannig. Það er mikil ólga úti í samfélaginu hjá eldri borgurum. Ég fékk símtal rétt áður en ég fór í ræðustól frá manni suður með sjó sem sagði: Þið látið þetta fólk ekki komast upp með að svara ykkur ekki hvort það ætli að koma til móts við okkur. Það er gríðarleg reiði kraumandi og er nú varla á hana bætandi.

Eins og margoft hefur komið fram er fínn uppgangur í samfélaginu. Sjávarútvegurinn blómstrar sem er frábært. Við eigum öfluga útgerðarmenn sem hafa gert útveginn að mjög hagkvæmri atvinnugrein sem ekki er ríkisstyrkt, ólíkt því sem gerist í mörgum löndum. Hagnaður þeirra hefur verið ævintýralegur sem er líka frábært. Maður á að gleðjast yfir því ef vel gengur. Verslunin blómstrar. Ferðamannaiðnaðurinn blómstrar þrátt fyrir, að sagt er, mikil skattsvik. Það er eitthvað sem við gætum líka unnið verulega í. Við þurfum að nota tækifærið og efla samkennd þjóðarinnar og samfélagsvitund um það hvernig við eigum að byggja samfélagið, hvernig við viljum deila með okkur því sem við eigum. Ekki bara deila endalaust um eitthvað allt annað.

Ég vil meina að þessi breytingartillaga sé mjög góð, ég vona sannarlega að hún verði samþykkt. Það er margt gott líka frá meiri hlutanum eins og til dæmis að leggja 44 milljónir auka í Fangelsismálastofnun sem mér skilst að séu eyrnamerktar til að opna Barnakot. Það finnst mér gott. Það er með ævintýralegum ólíkindum að við skulum láta viðgangast að Barnakoti sé lokað og brjóta þannig svívirðilega á réttindum barna. Nú höfum við undirritað og samþykkt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en samt brjótum við á þessum réttindum. Þess vegna fagna ég því að lagður hafi verið peningur í þetta. Við pössum okkur á því að gera þetta aldrei aftur, látum það aldrei gerast aftur að börn fólks sem er í vandræðum skuli líða fyrir handvömm þeirra sem stjórna.

Virðulegur forseti. Að þessu sögðu vil ég hvetja til þess að þingheimur allur sameinist um að samþykkja þessa tillögu og finna til þess pening, hann er til, það er ljóst. Sameinumst um það öll sem hér vinnum að tryggja þessum hópum samfélagsins mannsæmandi lífskjör. Þau voru hérna síðast úti í morgun. Ég vil líka benda á, fyrst ég var að tala um fund Öryrkjabandalagsins, að Gallup gerði skoðanakönnun fyrir bandalagið þar sem meðal annars var spurt hvort fólk treysti sér til að lifa á 180 þús. kr. á mánuði. 90% svarenda sögðu nei. 95% svöruðu að þau teldu mjög sanngjarnt og algerlega nauðsynlegt að öryrkjar fengju launabót. Maður veltir því fyrir sér þegar talað er um skoðanakannanir og annað að í þeim er kannski hægt að finna hjartsláttinn í samfélaginu þótt menn hafi misjafnt álit á þeim og túlki eftir „behag“. Ef þeim hentar eru þetta fínar skoðanakannanir, ef ekki eru þær slæmar. En hlutfallið er 95% og gerist varla rússneskara en það. Fólk er á þessari braut. Það vill þetta. Nákvæmlega eins og með heilbrigðiskerfið, fólk vill leggja aukna peninga í þessi mál, menn vita að þetta eru grunnstoðirnar. Það er algert lykilatriði fyrir samfélag sem vill telja sig til siðaðra þjóða að styðja fólk sem á undir högg að sækja og þarf aðstoð til að lifa mannsæmandi lífi. Það á ekki að þurfa að skammast sín fyrir það. Það eru mín lokaorð, forseti.