145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[13:48]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður rifjaði upp óundirbúna fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um málið sem var aðalinntak ræðu hans hér áðan, kjör aldraðra og öryrkja. Ef ég hef tekið rétt eftir þá talaði hæstv. forsætisráðherra um að hann vonaðist eftir breiðri sátt á Alþingi um þetta mál. Nú vil ég spyrja hv. þingmann hvort geti verið að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki biðlað til stjórnarandstöðunnar heldur til hins stjórnarflokksins því að það er algjörlega ljóst að við höfum efni á að halda kjörum öryrkja og aldraðra fyrir ofan lágmarkslaun. Við sýnum góðan afgang í fjáraukalagafrumvarpinu sem við ræðum. Það er einnig góður afgangur af fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016. Það kostar 6,6 milljarða að hækka kjör aldraða og öryrkja á árinu 2015 frá 1. maí. Afgangurinn sem verið er að sýna í fjáraukalögunum er upp á tæplega 21 milljarð. Peningarnir eru því ekki vandamálið, það er kannski frekar pólitíkin.

Ég vil biðja hv. þingmann að velta því upp með okkur hér hvort vera kunni að hæstv. forsætisráðherra hafi verið að kalla á hjálp frá stjórnarandstöðunni til þess að fá hinn stjórnarflokkinn til að fallast á þá sanngirniskröfu að aldraðir og öryrkjar séu að minnsta kosti með kjör á við þá sem eru á lágmarkslaunum í landinu.