145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[13:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Eðlilegt, já, það er það sem mikilvægt er að ná sameiginlegum skilningi um. Ég vil kannski spyrja þingmanninn við þetta tækifæri hvort leið eins og uppboðsleiðin til dæmis á aflaheimildum mundi hugnast þingmanninum sem einhver almenn leið til að finna út úr því hvað sé eðlilegt, og það eðlilega væri þá það sem útgerðarmenn byðust sjálfir til að borga fyrir aflaheimildir á opnu og almennu uppboði þar sem enginn er neyddur til að kaupa það sem hann vill ekki kaupa, en menn geta boðið það sem þeir treysta sér til. Væri það aðferð við að leysa þessa gömlu deilu um eðlilegt gjald af auðlindinni?

Hins vegar vildi ég spyrja þingmanninn um afstöðu hans til auðlegðarskatts. Nú vekur það auðvitað athygli að ríkisstjórnin kaus að framlengja ekki auðlegðarskattinn. Þannig hafa skattar 5 þús. ríkustu fjölskyldna í landinu lækkað umtalsvert sem nemur á þessu ári hærri fjárhæð en það mundi kosta að láta aldraða og öryrkja hækka afturvirkt til vors. Auðlegðarskatturinn einn og sér hefði á þessu ári skilað yfir 10 milljörðum kr. (VigH: Af hverju vilduð þið afnema hann?) en hann — við vildum ekki afnema hann, hann var bara settur tímabundið og framlengdur jafnan, hv. þingmaður. En það er auðvitað athyglisvert að það sé forgangsmál að lækka skatta sérstaklega á leiðtoga Framsóknarflokksins.

Maður spyr sig. (Gripið fram í.) Flokkur sem ekki telur sig geta leiðrétt kjörin frá vorinu á þá sem fátækastir eru í landinu, hvers vegna ákveður þá sá flokkur, Framsóknarflokkurinn, að létta sköttum sérstaklega af 5 þús. ríkustu heimilunum í landinu?