145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:01]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er fín spurning, mjög góð spurning. Maður veltir oft fyrir sér af hverju alltaf er verið að lækka skatta á þá sem best hafa það á Íslandi. Ég veit ekki með þennan auðlegðarskatt. Margir voru mjög mótfallnir honum og töldu það vera eignaupptöku. Ég veit það ekki. Mér fannst hann ekki hár, 1,5% minnir mig, á þá sem áttu einhverjar gígantískar eignir, en þetta var náttúrlega kannski ósanngjarnt gagnvart því fólki sem átti bara peninga í eignum. Ég held að hægt hefði verið jafnvel með góðum vilja allra að breyta því. Einhverjar breytingartillögur komu fram að mig minnir frá Vinstri grænum um það hvernig mætti breyta þeim skatti og halda honum áfram. Eins kom tekjuskattslækkun fram á fyrsta þingi sem nam 5–6 milljörðum á ári sem ég hefði alveg gjarnan viljað bíða með og hefði verið hægt að nýta þá peninga í að byggja upp velferðarkerfið og einmitt kannski þeirra hópa sem við erum að tala um núna. Og ekki er úr vegi að nefna að í dag er alþjóðadagur fatlaðra. Það væri nú bragur á því að við kæmumst að þeirri niðurstöðu að við mundum koma til móts við kröfur þeirra.

En hvað varðar uppboðsleiðina og annað á fiski. Það er örugglega fín leið. Við komum með tillögu hvað varðar makrílinn, útfærða tillögu um það, hefðum gert það ef það mál hefði farið í gegn. En ég tel gríðarlega mikilvægt þegar sjávarútvegurinn er annars vegar að vanda sig því að við erum þrátt fyrir allt með best rekna sjávarútveg í heimi. Ég tel mjög varasamt að hrófla mikið við honum nema í fullkominni sátt. Við þurfum einhvern veginn samt að finna út úr því hvernig við gerum það í sátt, útgerðarmenn og aðrir séu sáttir við að borga sanngjarnt og eðlilegt gjald til þjóðarinnar. Það er alltaf spurningin um þetta sanngjarna og eðlilega. Um það deilum við sjálfsagt endalaust. En það er hlutur sem við eigum að vinna að og helst í sátt og samlyndi.