145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:24]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og tek undir framtíðarsýn hennar um vinstri stjórn. Mikið óskaplega væri gott ef jafnaðarmenn (Gripið fram í.) hefðu fengið að byggja upp samfélag í anda vinstri stefnunnar og nýtt árangurinn sem búinn var til og náðst hefur. Það er blóðugt að horfa upp á aðför hægri stjórnarinnar og hvernig hún nýtir árangurinn sem lagður var grunnur að á síðasta kjörtímabili.

Frú forseti. Ég ætlaði ekki að ræða það við hv. þingmann heldur vildi ég spyrja hana hvort hún væri ekki sammála því að það skorti algjörlega framtíðarsýn og stefnu varðandi hvernig glíma ætti við fleiri ferðamenn í landinu. Nú hefur þeim fjölgað óskaplega mikið og álag á alla innviði er mikið. Við erum ánægð með að ferðamönnum fjölgi því að það hefur jákvæð áhrif á ýmsa vegu, en það má ekki gleyma því að það er mikið álag á innviðina, ekki bara á ferðamannastaðina og friðlýstu svæðin heldur er álag á vegina, eins og hv. þingmaður kom inn á, og lögregluna og heilsugæsluna.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála mér um að það þurfi að fara í mikið átak á öllum þessum sviðum. Það er ekki nægilegt að horfa bara á ferðamannastaðina og vegina eins og er aðeins verið að gera þó að fátæklega sé reitt fram, í það minnsta í þessum fjáraukalögum. Verðum við ekki að gera stórátak á öllum sviðum hvað þetta varðar?