145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:28]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hægri stjórnin er verklaus, það er löngu ljóst. Í þessu tilfelli er slæmt að hún skuli ekki taka sig taki og setja upp áætlun fyrir þá vaxandi atvinnugrein sem ferðaþjónustan er orðin. En að sumu leyti er maður fegin að hún skuli vera verklaus því að þá veldur hún ekki skaða. Á þessu verður að taka. Það er mjög bagalegt bæði fyrir sveitarfélög og þá sem stunda atvinnu innan greinarinnar að það skuli vera slíkt stefnuleysi og rugl í gangi.

Á síðasta kjörtímabili gerði góða vinstri stjórnin fjárfestingaráætlun. Við höfum verið að rifja þá áætlun upp í dag í tengslum við fjáraukalagafrumvarpið vegna þess að með þessu fjáraukalagafrumvarpi staðfestist svo að ekki verður um villst að fjárfestingaráætlunin var að fullu fjármögnuð, eins og áætlanir gerðu ráð fyrir, en hægri stjórnin henti henni út af borðinu. Í þeirri áætlun var einmitt gert ráð fyrir að 7.500 milljónum á árunum 2013, 2014 og 2015 yrði varið í samgöngumannvirki. Það hefði munað um það ef farið hefði verið eftir þeirri áætlun. Einnig var áætlað að 2.250 milljónir færu í uppbyggingu ferðamannastaða og innviða friðlýstra svæða. Þarna var vinstri stjórnin búin að gera áætlun þrjú ár fram í tímann um hvernig ætti að byggja upp og nýta slakann sem varð í hagkerfinu til þess að fara út í fjárfestingarverkefni, bæði til að skapa störf og til að búa í haginn fyrir (Forseti hringir.) framtíðina.

Ég rifja þetta upp með hv. þingmanni (Forseti hringir.) og spyr hana: Væri ekki betra ef hægri stjórnin sæi sér fært … (Forseti hringir.) þó að það væri ekki nema helmingurinn af áætlanagerð vinstri stjórnarinnar?